„Þurfum að mótmæla þessum hatursfullu skilaboðum“

Muhammed Emin Kizilkaya.
Muhammed Emin Kizilkaya. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Þar sem ég sjálfur er múslimi í minnihlutahópi og ber nafnið Muhammed leyfist mér að segja að þessi gjörningur er ekki einungis sorglegur heldur hryllir mann líka við honum þar sem þetta minnir okkur á það hvernig hugsunarháttur tíðkaðist í Evrópu árum áður.“

Þetta er meðal þess sem háskólaneminn Muhammed Emin Kizilkaya skrifar í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Ástæða skrifanna er rasískur áróður sem félagsmenn í nýnasistasamtökunum Norðurvígi hafa dreift á háskólasvæðinu í vikunni.

Muhammed segir að hann viti að stúdentahreyfingar Háskóla Íslands fordæmi þennan gjörning.

„Þetta er eitthvað sem varðar alla stúdenta og þurfum við þess vegna að taka öll á þessu saman og mótmæla þessum hatursfullu skilaboðum. Hið þversagnakennda við þetta atvik í heild sinni er að þessum áróðri hefur verið dreift um svæði þar sem erlendir nemendur dvelja, til dæmis í kringum Stúdentagarðana. Þessir erlendu nemendur koma víðs vegar að úr heiminum og fá því afar skakka hugmynd af því hvað Íslendingar standa fyrir,“ skrifar Muhammed.

Hann ítrekar að áróðurinn tákni ekki það sem Ísland, háskólasamfélagið eða Íslendingar almennt standi fyrir. „Þessi áróður hefur skýr skilaboð um vilja til aðgreiningar, hatur og öfgafulla hugsýn um framtíð Íslands,“ skrifar Muhammed.

Hann bendir á að dreifingarnar falli undir hatursorðræðu sem hvetji til aðgreiningar og ofbeldis og sé framsetning á fáfræði og einangrun frá samfélagslegum veruleika.

„Við viljum biðja nemendur Háskóla Íslands að hafa samband við fulltrúa Stúdentaráðs Háskóla Íslands ef þeir telja sig hafa orðið fyrir áhrifum tiltekins atviks, þar sem þetta er algjörlega ólíðandi. Við búum í nútímasamfélagi þar sem ekki á að skipta máli hvaðan þú kemur, hverrar trúar eða kynþáttar þú ert. Við búum öll saman í þessu samfélagi þar sem fjölbreytileiki er óhjákvæmilegur og verður hann það alltaf. Þessi litli hópur sem samanstendur af öfgafullum ódæðismönnum og vinnur að því um allan heim að koma á aðgreiningu með valdi og ofbeldi stendur fyrir skoðanir sem almenningur mun aldrei endurspegla,“ skrifar Muhammed.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert