Vilja áþreifanlegar kerfisbreytingar

Salvör, lengst til vinstri, les upp kröfur mótmælenda.
Salvör, lengst til vinstri, les upp kröfur mótmælenda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þungaðar konur, börn og aðrir hyggjast mótmæla reglulega í og við dómsmálaráðuneytið þar til komið verður til móts við kröfur þeirra um bætta meðferð á hælisleitendum og flóttafólki. 

Fyrstu mótmælin fóru fram í anddyri dómsmálaráðuneytisins í dag, þau hófust klukkan þrjú og stóðu þau enn yfir þegar blaðamaður náði tali af helsta skipuleggjanda þeirra, Salvöru Gullbrá, rétt fyrir klukkan fjögur í dag. 

Hópurinn bað um áheyrn frá dómsmálaráðherra sjálfum, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, en ráðherra var ekki unnt að verða við þeirri beiðni.

„Við komum hingað hópur af fólki, óléttar konur, konur með vagn og börn sem gengu sjálf. Við komum inn í dómsmálaráðuneyti og báðum um áheyrn frá starfsmanni þar. Við báðum fyrst um að dómsmálaráðherra tæki á móti okkar kröfum. Kröfurnar voru lesnar upp og við komumst að þeirri niðurstöðu að ef ekki yrði brugðist við þessum kröfum á einhvern áþreifanlegan hátt yrðum við hér aftur og það verður ekkert lát á því,“ segir Salvör.

Vilja aðgerðir tafarlaust

Kröfur mótmælenda eru þær að ríkisstofnanir starfi á mannúðlegan hátt. 

„Sí endurtekið er ómannúðlegum vinnubrögðum Útlendingastofnunar í einstaka málum hælisleitenda mótmælt. Hingað til hafa slík mótmæli og vilji almennings ekki leitt til endurskoðunar á reglum og framkvæmd laganna“, segir í bréfinu sem Salvör las í ráðuneytinu.

„Börn eru send úr landi um miðja nótt. Fólki með lítil börn er ítrekað tilkynnt um yfirvofandi brottvísun eftir lokun stofnana, sem gerir því ómögulegt að gera nokkuð til að koma í veg fyrir hana og nú er óléttri konu vísað úr landi þrátt fyrir að heilsufar leyfi það ekki. Við krefjumst þess að gerðar verði áþreifanlegar breytingar á þessu kerfi svo atburðir eins og þeir á aðfaranótt þriðjudags geti ekki komið fyrir aftur. Við krefjumst þess að farið verði í þær aðgerðir strax“, segir jafnframt í bréfinu.

„Það var mjög ánægjulegt að sjá að afgreiðsla dómsmálaráðuneytisins fylltist,“ …
„Það var mjög ánægjulegt að sjá að afgreiðsla dómsmálaráðuneytisins fylltist,“ segir Salvör. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan hafði auga með mótmælunum en samkvæmt Jóhanni Karli Þórissyni, stöðvarstjóra á lögreglustöð eitt við Hverfisgötu fóru þau friðsamlega fram.

Þungaður hælisleitandi mætti

Tilefni mótmælanna er mál þungaðrar albanskrar konu sem vísað var úr landi á þriðjudagsmorgun. Konan var komin 36 vikur á leið og hafði læknir gefið út vottorð þar sem staðfest var að hún myndi eiga erfitt með langt flug. Það vottorð var hunsað og konan send í 20 klukkustunda langt ferðalag til Albaníu.

„Ein hér hafði fréttir af hennar líðan og hún sagði okkur frá því. Þau eru á milli húsa því þau gengu auðvitað ekki að sínu húsi þegar þau komu til baka sem er náttúrulega óþægilegt ástand fyrir ólétta konu,“ segir Salvör. 

Salvör ræðir við fulltrúa í móttöku ráðuneytisins.
Salvör ræðir við fulltrúa í móttöku ráðuneytisins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á mótmælin mætti þunguð kona sem er hælisleitandi og því í svipuðum sporum og albanska konan.

„Hún er komin fjóra mánuði og tuttugu vikur á leið. Hún hefur ekki fengið tíma í mæðravernd hjá Útlendingastofnun sem sér auðvitað um heilbrigðismál hælisleitenda. Það var líka ákveðið sjokk. Það þarf greinilega að skoða þessi mál af mikilli alvöru því eins og allt heilbrigðisstarfsfólk veit þá geta ýmsir heilsukvillar komið upp ef ekki er fylgst vel með meðgöngu fólks. Mæðravernd er réttur kvenna sem hafa íslenskan ríkisborgararétt en það er áhugavert að konur sem koma hingað til lands hafi ekki sama rétt. Við viljum augljóslega bara að vel sé séð um heilsu fólks á meðan það er hérlendis, hvort sem fólk eigi að vera hér eða ekki. Það hefur í raun ekkert með málið að gera.“

Börn jafnt sem fullorðnir og fæddir jafnt sem ófæddir létu …
Börn jafnt sem fullorðnir og fæddir jafnt sem ófæddir létu sjá sig. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afgreiðsla ráðuneytisins fylltist

Salvör segir að mikil samstaða hafi ríkt á meðal mótmælenda en hún boðaði til mótmælanna á samfélagsmiðlinum Twitter í gær. 

„Þetta er auðvitað stuttur fyrirvari svo það var mjög ánægjulegt að sjá að afgreiðsla dómsmálaráðuneytisins fylltist. Það sýnir að fólk er að hugsa um þessi mál og að það sé tilbúið í að bregðast skjótt við. Það mun halda áfram ef ekkert verður að gert.“

Spurð hvort hún sé bjartsýn á að mótmælin muni hafa áhrif segir Salvör:

„Sem borgari þá krefst ég þess en bjartsýni er ekki tilfinningin sem hefur komið upp í öllum fréttum sem maður hefur heyrt af þessu máli, sérstaklega af viðbrögðum dómsmálaráðherra og forstjóra útlendingastofnunar, þá myndi ég ekki segja að bjartsýni sé tilfinningin sem komi upp. Ég hef þó mikla trú á því að fólk muni láta sig þetta varða og geti knúið fram einhverjar breytingar á þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert