Segja tillögur Landlæknis byggja á gömlum gögnum

Gosdrykkir í hyllu verslunar. Mynd úr safni.
Gosdrykkir í hyllu verslunar. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Félag atvinnurekenda vekur á vef sínum athygli á því að tillögur Landlæknisembættisins um aðgerðaráætlun til að draga úr sykurneyslu byggi m.a. á átta ára gömlum tölum um neyslu á gosdrykkjum. Á þeim tíma, segir í frétt FA, hefur gosneysla Íslendinga þó breyst hratt, án skatta eða opinberrar neyslustýringar.

Segir FA megintillögu Landlæknisembættisins aftur vera þá að leggja eigi skatt á  gosdrykki, jafnt sykraða sem ósykraða, og sælgæti. Gögnin sem tillögurnar byggi á séu þó ekki bara orðin gömul, heldur séu þau þar að auki rangtúlkuð.

Kveðst félagið hafa skrifað  Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í sumar og svo aftur nú í haust og ítrekað boð sitt um samstarf við ráðuneytið og stofnanir þess um að tryggja að vinna stjórnvalda byggi á réttum gögnum um sykurneyslu. 

 „Á átta árum hefur hlutdeild sykraðra gosdrykkja lækkað úr 60% í 40%, um leið og hlutdeild kolsýrðs vatns tvöfaldaðist,“ segir í fréttinni. Heilbrigðisráðuneytið og Landlæknisembættið hafi hins vegar sýnt „áreiðanlegum gögnum um mikinn samdrátt í neyslu Íslendinga á sykruðu gosi - án opinberrar neyslustýringar - einkennilega lítinn áhuga.“

Kort/Félag atvinnurekenda

Í töflu sem FA birtir með fréttinni má sjá þróun í neyslu á sykruðum og ósykruðum gosdrykkjum frá 2011. Samkvæmt henni hefur hlutfall sykraðra gosdrykkja lækkað úr um 60% í 40% á tímabilinu, um leið og hlutdeild kolsýrðs vatns hefur vaxið úr 15% í 30% og hlutdeild sykurlausra drykkja haldist svipuð.

„Starfshópur ráðherra hlýtur að taka mark á þessum tölum,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Þær sýna svart á hvítu að neyslan breytist hratt án aðgerða stjórnvalda. Það er aukin vitund neytenda um skaðsemi ofneyslu á sykri og krafa þeirra um hollari vörur sem breytir vöruframboðinu hratt. Þróunin er mun hraðari hér á landi, án opinberrar neyslustýringar, en í ýmsum löndum sem hafa tekið upp gos- eða sykurskatta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert