Tekið verður á móti 85 flóttamönnum

Ríkisstjórn Íslands ákvað að taka á móti 85 flóttamönnum.
Ríkisstjórn Íslands ákvað að taka á móti 85 flóttamönnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkisstjórn Íslands samþykkti í síðustu viku að taka á móti 85 einstaklingum í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Er þetta fjölmennasta móttaka flóttafólks síðan íslensk stjórnvöld hófu móttöku flóttafólks í samstarfi við stofnunina. Um er að ræða flóttafólk frá Sýrlandi, Keníu og Afganistan.

Í tilkynningu frá ríkisstjórninni kemur fram að ákvörðunin sé í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem kveði á um að Ísland taki á móti fleira flóttafólki.

Sýrlenska flóttafólkið er nú í Líbanon, en Sýrlendingar eru fjölmennasta þjóðin sem hefur þörf fyrir vernd. Staðan meðal sýrlensks flóttafólks í Líbanon fer síversnandi og kemur fram að 55% barna hafi ekki aðgang að formlegri menntun og 40% hafi engan aðgang að menntun.

Flóttamannastofnun áætlar að 45 þúsund manns séu í brýnni þörf fyrir að komast sem kvótaflóttafólk frá Keníu á þessu ári. Stofnunin hefur skilgreint fjóra hópa sem eru sérlega viðkvæmir. Það eru hinsegin flóttafólk, flóttafólk frá Suður-Súdan, flóttafólk sem hefur tekið þátt í stjórnmálum, mannréttindabaráttu og blaðamennsku og flóttafólk frá Sómalíu sem hefur sértækar þarfir.

Afganska flóttafólkið er nú statt í Íran, en áætlað er að 2,6 milljónir hafi flúið frá Afganistan síðan stríðið þar hófst og hafa margir dvalið langtímum saman í flóttamannabúðum. Afganskar konur og stúlkur eru í sérlega viðkvæmri stöðu vegna kynbundins ofbeldis, þvingaðra hjónabanda og annarra hefða sem tengjast uppruna þeirra, kyni og stöðu.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) skilgreinir nú 19,9 milljónir einstaklinga sem flóttafólk og áætlar stofnunin að af þeim séu 1,44 milljónir í brýnni þörf fyrir að komast í öruggt skjól sem kvótaflóttafólk. Eingöngu 4% af þeim einstaklingum komust í öruggt skjól á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert