15 milljónir til verslunar í strjálbýli

Meðal verslana sem hljóta styrk er Búðin á Borgarfirði eystri.
Meðal verslana sem hljóta styrk er Búðin á Borgarfirði eystri. mbl.is/Golli

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur samþykkt að úthluta 14,9 milljónum króna til verslunar í strjálbýli fyrir árin 2019 og 2020, að tillögu valnefndar um verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018 til 2024.

Alls voru gefin fyrirheit um styrki að upphæð 20,6 milljónir króna á árunum 2019 til 2021 og verða samningar vegna styrkjanna undirritaðir á næstu dögum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Þar segir að markmiðið með framlögunum sé að styðja verslun í skilgreindu strjálbýli fjarri stórum þjónustukjörnum þar sem verslun hefur átt erfitt uppdráttar.

Alls bárust valnefndinni sjö umsóknir og var sótt um samtals rúmlega 41,5 milljónir króna, en styrkirnir sem vettir verða voru eftirfarandi: Búðin Borgarfirði eystri hlýtur styrk að heildarupphæð 5 milljónir króna til þriggja ára, Pöntunarþjónusta Hafnartanga á Bakkafirði fær styrk að upphæð 1,5 milljónir króna, Brekkan Stöðvarfirði hlýtur styrk að heildarupphæð 6 milljónir króna til þriggja ára, Skerjakolla ehf. hlýtur styrk að upphæð 2,3 milljónir króna, verkefnið Verslun á Drangsnesi hlýtur styrk að upphæð 4,8 milljónir króna til þriggja ára og Verslun í Ásbyrgi hlýtur styrk að upphæð 1 milljón króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert