Auðvelt að sækja um aukaíbúðir

Í miðborg Reykjavíkur.
Í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Eggert

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, segir nýtt hverfaskipulag munu einfalda mikið umsóknir um breytingar á húsnæði. Það muni til dæmis verða fljótlegt og einfalt að sækja um stækkun á húsnæði ef heimildir leyfa.

Ferlið við að sækja um byggingarheimildir verði mun einfaldara en áður.

Fyrsta hverf­is­skipu­lagið í Reykja­vík hef­ur tekið gildi í Ártúns­holti, Árbæ og Sel­ási. Önnur hverfi í Reykja­vík munu fylgja í kjöl­farið og er gert ráð fyr­ir að flest hverfi Reykja­vík­ur verði kom­in með hverf­is­skipu­lag árið 2022. Fjallað var um skipulagið á mbl.is.

„Fyrir borgarbúa er aðalatriðið að kerfið er allt orðið miklu notendavænna og einfaldara. Þannig að sem borgarbúi getur þú einfaldlega slegið inn þitt heimilisfang, fengið þær heimildir sem eru í boði og sótt um þær. Og í raun og veru ertu með góðar leiðbeininingar, skref fyrir skref, um hvernig það mun ganga fyrir sig,“ segir Sigurborg Ósk.

Búið að stytta ferlið

Sigurborg Ósk á fundinum í morgun.
Sigurborg Ósk á fundinum í morgun. Aðsend mynd

 

Hún segir aðspurð að framvegis muni ekki þurfa að fara í grenndarkynningu í hverfum þar sem nýja hverfaskipulagið hefur tekið gildi. Búið sé að stytta ferlið og vinna gríðarlega forvinnu.

„Það var allt auglýst þegar hverfaskipulagið var auglýst. Þessar heimildir eru einfaldlega til staðar. Það þarf aðeins að sækja um þær að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Kerfið verður miklu skilvirkara. Það mun aðeins taka örfáa daga eða vikur að fá leyfi sem áður tók mánuði að fá. Það getur verið leyfi til að bæta við kvistum, stækka við húsnæði eða breyta bílskúr í íbúð. Það er misjafnt eftir húsum. Sum húsin má stækka en hjá öðrum má byggja smáhýsi,“ segir Sigurborg Ósk.

Hún segir borgina hafa lagt mikla áherslu á samráð. Það hafi komið í ljós að íbúar vilji meðal annars aukna nærþjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert