Dapurlegt dæmi um arðrán

Indriði H. Þorláksson er hagfræðingur að mennt. Hann var ráðuneytisstjóri …
Indriði H. Þorláksson er hagfræðingur að mennt. Hann var ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og aðstoðarmaður ráðherra 2009 - 2010 og ráðgjafi Steingríms J. Sigfússonar fjármála- og sjávarútvegsráðherra til 2013. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Auðlindaarðránið í Namibíu í samvinnu íslensks félags og spilltra stjórnmálamanna þar í landi er dapurlegt dæmið um að svona arðrán dó ekki út með hruni nýlenduveldanna,“ skrifar Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, í pistli á vef Stundarinnar.

„Ég get ekki sagt að athafnir Samherja hafi komið alveg á óvart. Starfsumhverfi útgerða og umgerð fjármálaviðskipta hérlendis er með þeim hætti að ólíklegt hefði verið að enginn færi yfir lagaleg og siðleg mörk í gróðasókn sinni. Vísbendingar síðustu missera um viðskipti tengdra félaga vítt um lönd hafa vakið spurningar sem ekki hefur verið svarað fyrr en nú. Þar sem reykur er þar er líka eldur stendur einhvern staðar. Það sem kom á óvart var hve upplýsingar Kveiks og Stundarinnar eru umfangsmiklar og afhjúpandi um þá margbrotnu og skipulögðu leynistarfsemi sem fram fór,“ skrifar Indriði. 

„Athyglin hefur eðlilega beinst að meintum mútum sem, ef sannar reynast, eru refsivert lagabrot. En málið afhjúpar margt annað sem ekki má líta fram hjá. Það gefur í fyrsta lagi sláandi mynd af því arðráni sem viðgengst í þróunarlöndunum. Í öðru lagi sýnir málið brest í viðskiptasiðferði og opinberar tvöfalt siðferði gagnvart fátækum þróunarlöndum. Í þriðja lagi birtist í því aðhaldleysi eftirlitsaðila. Í fjórða lagi afhjúpar það varnanarleysi gagnvart peningaþvætti og skattsvikum og síðast en ekki síst er það enn eitt dæmi um eitraðan kokkteil valds og viðskipta hérlendis sem erlendis. Þessi atriði mega ekki gleymast í hita leiksins,“ segir enn fremur í pistlinum.

Hann fjallar um gráa lista FAFT sem Ísland var sett á nýverið. „Féll það í grýttan jarðveg hér á landi og töldu stjórnvöld þá ráðstöfun ómaklega. Samherjamálið sýnir hins vegar að öll skilyrði til peningaþvættis eru fyrir hendi og vekur þá spurningu hvort FAFT hafi einfaldlega verið betur upplýst um raunverulegt ástand í þessum málum en íslensk stjórnvöld. Það er gömul saga og ný að íslensk stjórnvöld hafa ætíð dregið lappirnar oftast vegna þrýstings frá „hagsmunaaðilum“ þegar að aðgerðum gegn skattsvikum og peningaþvætti hefur komið.

Því verður ekki á móti mælt með rökum að hér á landi er mikið ógagnsæi í starfsemi fyrirtækja einkum þeirra sem jafnframt eru með starfsemi, raunverulega eða til málamynda, í erlendri lögsögu. Skráning erlendra félaga í eigu íslenskra aðila er í molum, skráning raunverulegra eigenda og stjórnenda sömuleiðis og ársreikningar eru ófullkomnir og oft óaðgengilegir þótt um sé að ræða stórfyrirtæki sem sýsla með auðlindir þjóðarinnar,“ segir enn fremur en pistilinn er hægt að lesa í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert