Hvað er hringtorg?

Hvort er Hagatorg hringlaga akbraut eða hringtorg?
Hvort er Hagatorg hringlaga akbraut eða hringtorg? Rax / Ragnar Axelsson

Í núgildandi umferðarlögum, nr. 50/1987, segir um hringtorg að þar megi eigi stöðva ökutæki eða leggja því og þess vegna skiptir máli hvað telst vera hringtorg. Í þessum lögum er þó engin skilgreining á því hvað teljist hringtorg og var ef til vill álitið hafið yfir vafa þegar þau voru sett fyrir rúmum þremur áratugum. Eins og Morgunblaðið og mbl.is hafa fjallað um að undanförnu var nýlega sett upp strætóstoppistöð á Hagatorgi í Vesturbæ Reykjavíkur, fyrir utan Hótel Sögu, og hefur Reykjavíkurborg rökstutt það með þessum orðum upplýsingastjóra Reykjavíkurborgar: „Þetta er ekki hringtorg, heldur akbraut. Þetta er vissulega torg, en ekki endilega hringtorg þó að það liggi í hring.“

Í sumar voru samþykkt ný umferðarlög, nr. 77/2019, sem taka gildi 1. janúar 2020. Þar er meiri umfjöllun um hringtorg en í núgildandi lögum og þar er meðal annars að finna skilgreiningu á því hvað teljist hringtorg. Í þriðju grein laganna, þar sem er að finna skilgreiningar á því sem lögin fjalla um, segir meðal annars um hringtorg: „Vegamót þar sem hringlaga svæði er í miðjunni með akbraut umhverfis.“ Samkvæmt þessu er að minnsta kosti ekki hægt að sjá að Hagatorg verði annað en hringtorg frá næstu áramótum, en eins og áður segir er ekki bein skilgreining í núgildandi lögum um hvað teljist hringtorg.

Í nýju lögunum kemur einnig fram að eigi megi stöðva ökutæki eða leggja því á hringtorgi, rétt eins og í núgildandi lögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert