Íslenskir grínistar á ferðalagi um Kína

Frá vinstri: Þórhallur, Helgi Steinar og Bjarni.
Frá vinstri: Þórhallur, Helgi Steinar og Bjarni. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum gríðarlega ánægðir með ferðina fram til þessa, en þetta er auðvitað allt öðruvísi land,“ segir Helgi Steinar Gunnlaugsson. Vísar hann í máli sínu til sýningarferðar þriggja íslenskra uppistandara um Kína undanfarna daga. Með Helga í för eru grínistinn Þórhallur Þórhallsson og Bjarni „töframaður“ Baldvinsson, en ráðgert er að túrnum ljúki í næstu viku.

Sýningar töframannanna bera yfirskriftina Bing Dao sem jafnframt merkir Ísland á kínversku. Gríðarleg ásókn hefur verið í miða á sýningarnar og að sögn Helga má búast við því að uppselt verði á flestar sýninganna. „Það mættu um hundrað manns á fyrstu sýninguna okkar í Shanghai og var hún uppseld. Við gerum ráð fyrir að það verði svoleiðis út túrinn,“ segir Helgi, en alls halda töframennirnir fjórar stórar sýningar í borgum víðs vegar um landið.

Þekkir vel til í Kína

Ólíkt kollegum sínum er Helgi kunnugur staðháttum í Kína, en hann hefur dvalið þar í landi um nokkurra ára skeið. „Ég kláraði háskólanám mitt í Kína og hef jafnframt búið hérna í fimm ár,” segir Helgi og bætir við að hann sé því talsvert vanari kínverskri menningu en ferðafélagar hans. „Strákarnir eru að reyna að venjast matnum og loftslaginu. Svo talar enginn ensku hérna þannig að ég hef fengið það hlutverk að túlka fyrir þá. Það er auðvitað bara skemmtilegt,“ segir Helgi.

Líkt og fyrr segir lýkur ferðalaginu í næstu viku, 20. nóvember nk. Meðal borga sem heimsóttar hafa verið eru; Peking, Ningbo, Wuhan og Shanghai.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert