Barn á rúntinum með vinina

Ungur ökumaður var stöðvaður í Árbænum af lögreglu en drengurinn hafi ekki náð aldri til að öðlast ökuréttindi. Of margir farþegar voru í bifreiðinni þar sem hann hafi tekið vini sína með á rúntinn. Einnig virtist hann ekki alveg kunna á bílinn þar sem hann var ekki með ökuljósin kveikt. Málið afgreitt með aðkomu foreldra drengjanna ásamt því að tilkynning verður send til barnaverndar, segir í dagbók lögreglunnar að lokinni kvöld- og næturvakt. Ekki kemur fram hvar drengurinn hafði fengið bifreiðina. 

Líkt og oft áður voru ökumenn stöðvaðir sem reyndust vera undir áhrifum áfengis og eða annarra vímuefna. Einn þeirra var stöðvaður þar sem hann ók á móti einstefnu í miðborginni (hverfi 101). Þegar rætt var við hann kom í ljós að hann var ölvaður og því færður á lögreglustöð tl sýnatöku og að því loknu sleppt.

Tveir ökumenn sem voru undir áhrifum fíkniefna auk þess að vera sviptir ökuréttindum voru stöðvaðir úti í umferðinni í Vestur- og Austurbænum (hverfi 107 og 108). Tveir ökumenn sem voru stöðvaðir í Árbænum höfðu bæði neytt áfengis og fíkniefna áður en þeir settust undir stýri og fóru út í umferðina og einn ökumaður sem var stöðvaður í Garðabænum var undir áhrifum áfengis.

Ekið var á gangandi vegfaranda í Vogahverfi (hverfi 104) og lét ökumaður sig hverfa af vettvangi. Vegfarandinn meiddist lítillega. Síðan voru fjarlægð skráningarmerki af bílaleigubifreið þar sem hún var ótryggð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert