Jón og Reykjavíkurdætur verðlaunuð

Jón G. Friðjónsson tekur við verðlaununum úr hendi Lilju G. …
Jón G. Friðjónsson tekur við verðlaununum úr hendi Lilju G. Alfreðsdóttur menntamálaráðherra. mbl.is/​Hari

Jón G. Friðjónsson, prófessor við Háskóla Íslands, hlaut í dag verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Verðlaunin voru afhent í Gamla bíói á degi íslenskrar tungu.

Jón hefur kennt málvísindi og íslenska málfræði við HÍ um áratuga skeið og verið meðal brautryðjenda í kennslu íslensku sem annars máls við skólann, að því er fram kemur í fréttatilkynningu mennta- og menningamálaráðuneytisins.

„Ég óska Jóni hjartanlega til hamingju með verðlaunin og þakka honum innilega fyrir hans merka starf á sviði kennslu og rannsókna. Hann hefur með ástríðu og hugsjón unnið íslenskunni ómælt gagn og með miðlun sinni tendrað áhuga annarra á tungumálinu,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, við afhendingu verðlaunanna.

Auk kennslu íslensku fyrir Íslendinga hefur Jón einnig verið meðal brautryðjenda í kennslu íslensku sem annars máls við Háskóla Íslands.

Jón G. Friðjónsson prófessor við HÍ. Hann hefur auk kennslu …
Jón G. Friðjónsson prófessor við HÍ. Hann hefur auk kennslu íslensku fyrir Íslendinga einnig verið meðal brautryðjenda í kennslu íslensku sem annars máls við Háskóla Íslands. mbl.is/​Hari




Að tillögu ráðgjafanefndar verðlaunanna veitti ráðherra einnig hljómsveitinni Reykjavíkurdætrum sérstaka viðurkenningu í tilefni af Degi íslenskrar tungu.

Sagði í greinargerð ráðgjafanefndarinnar að Reykjavíkurdætur hafi verið valdeflandi fyrirmyndir sem hafi sýnt að hægt er að fella margbrotinn reynsluheim ungra Íslendinga í orð.   

Verðlaun Jónasar eru árlega veitt þeim einstaklingi sem hefur með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert