Óska eftir upplýsingum um verk Sveins

„Við viljum gjarnan vita hvað hefur varðveist á heimilum og hvað er til af innréttingum sem ekki hefur verið hreyft við,“ segir Arndís Árnadóttir, sýningarstjóri á verkum Sveins Kjarvals innanhús- og húsgagnahönnuðar í Hönnunarsafni Íslands en Sveinn var afar afkastamikill á árunum 1950-1970. Í gegnum tíðina hefur mikið af verkum hans glatast í framkvæmdum þar sem látlaus og fúnksjónalísk hönnun Sveins hefur þurft að víkja fyrir tíðarandanum.

Sýningin nefnist: Það skal vanda sem lengi á að standa, þar er fjöldi verka Sveins til sýnis auk ljósmynda af innréttingum á veitingastöðum og almannarýmum. Þá er hægt að skoða tækniteikningar Sveins af húsgögnum en hans þekktasta verk er Kjarvalsstóllinn sem hefur notið mikilla vinsælda í gegnum tíðina.

Sveinn, sem var sonur listmálarans Jóhannesar, lærði húsgagnasmíði í Danmörku á fjórða áratugnum en brautskráðist síðar sem sem innanhússarkitekt vorið 1949 frá Kunsthåndværkskolen í Kaupmannahöfn.

Safnið er opið frá kl. 12-17 alla virka daga nema mánudaga en frekari upplýsingar er að finn á facebook-síðu þess.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert