Þriðjungur barna kunni ekki að hringja í Neyðarlínuna

Niðurstaða könnunarinnar sýnir að þörf er á meiri fræðslu til …
Niðurstaða könnunarinnar sýnir að þörf er á meiri fræðslu til barna um hlutverk 112. mbl.is/Eggert

Niðurstöður könnunar níu lögreglufræðinema við Háskólann á Akureyri sem beindist að foreldrum barna á aldrinum 3 til 12 ára leiddi í ljós að 30% barna kunni ekki að hringja í Neyðarlínunna 112. Þá kom einnig í ljós að 61% foreldra eru ekki með heimasíma og að 51% barna kynnu ekki að hringja í 112 úr læstum farsíma.

Könnunin var hluti af verkefni í náminu og fór fram á netinu. „Þetta var dreifikönnun á netinu og við fengum 880 svör. Hún var ekki hávísindaleg en hún gefur vísbendingar,“ segir Olga Kristín Jóhannesdóttir lögreglufræðinemi í samtali við mbl.is.

Önnur atriði sem vöktu athygli voru að um fjórðungur barna hafði ekki fengið neina fræðslu um 112 og 34% foreldra höfðu ekki farið yfir hlutverk Neyðarlínu 112 með börnum sínum.

Upphaflega átti verkefnið að vera könnun og fræðsla um Neyðarlínu 112 á leikskóla en nemunum þótti það ekki nóg. Þeir ákváðu því að búa til dreifirit og reyna koma boðskapnum sem víðast.

Lögreglufræðinemarnir bjuggu til upplýsingamynd fyrir fræðsluna í leikskólanum en ákváðu …
Lögreglufræðinemarnir bjuggu til upplýsingamynd fyrir fræðsluna í leikskólanum en ákváðu að dreifa henni víðar til að koma boðskapnum á framfæri til sem flestra foreldra og barna. Facebook/Neyðarlínan 112

„Okkur fannst við þurfa fara með boðskapinn lengra og vekja athygli á þessum niðurstöðum því þetta eru ekki góðar tölur. Að börn séu svona illa upplýst getur verið hættulegt,“ segir Olga og bætir við:

„Það er ekki algengt að börn séu ein á vettvangi en það kemur fyrir og börn hafa bjargað mannslífum, það hefur sýnt sig áður.“

Olga segir að viðbrögðin sem hafi borist hafi verið góð og vakið fólk til umhugsunar. Margir foreldrar hafi hreinlega ekki fattað að kenna börnum að hringja í 112 úr læstum farsíma og þá séu einhverjir sem hafa losað sig við heimasímann en íhuga að fá sér aftur, öryggisins vegna.

Olga Kristín Jóhannesdóttir er ein af níu lögreglufræðinemum sem stóðu …
Olga Kristín Jóhannesdóttir er ein af níu lögreglufræðinemum sem stóðu að könnuninni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert