Enginn inni í íbúðinni

Húsið við Norðurgötu er gjörónýtt eftir eldsvoðann.
Húsið við Norðurgötu er gjörónýtt eftir eldsvoðann. Ljósmynd Bjarni Gunnarsson

Ólafur Stefánsson slökkviliðsstjóri á Akureyri segir að búið sé að tryggja að enginn var inni í íbúðinni þar sem eldurinn kom upp á Norðurgötu í nótt. Búið er að slökkva eldinn en enn rýkur úr húsinu. 

„Það er búið að fullleita húsið og það er enginn inni,“ segir Ólafur en það kom í ljós klukkan 10:20. „Við erum byrjaðir á frágangi og búið að slökkva allan eld,“ segir Ólafur og bætir við að enn rjúki úr húsinu víða. Húsið varð alelda um tíma þar sem slökkviliðsmenn komust ekki inn til þess að slökkva eldinn innanfrá og þegar tveir slökkviliðsmenn reyndu að fara inn í logandi húsið í nótt þá urðu þeir frá að hverfa. „Þeir fóru inn í smástund en voru komnir inn í 300 gráðu hita strax. Það var farið að hrynja úr loftinu þannig að þeir hörfuðu út aftur,“ segir Ólafur.

Húsið er eins og áður hefur komið fram gjörónýtt og að sögn Ólafs er búið að rífa allt þakið af húsinu sem er bárujárnsklætt timburhús. Ekki er vitað um eldsupptök en rannsóknin er í höndum rannsóknardeildar lögreglunnar. 

Klukk­an 05:14 í nótt fengu lög­regla og slökkvilið á Ak­ur­eyri til­kynn­ingu um eld í íbúðar­húsi við Norður­götu. Í hús­inu eru þrjár íbúðir og náðu íbú­ar tveggja þeirra að koma sér út en ekki var hægt að fá það staðfest hvort ein­hver hafi verið inni í þeirri íbúð sem eld­ur­inn kom upp í, sagði á face­booksíðu lög­regl­unn­ar á Norður­landi eystra snemma í morgun. 

Allt bendir til þess að einhver óvissa hafi verið í upphafi um hvaða hús væri að ræða og komu tilkynningar um tvö húsnúmer við Norðurgötu fyrst eftir að tilkynningin barst.

Ólafur segir að strax hafi allar vaktir slökkviliðsins á Akureyri verið kallaðar út og tóku á þriðja tug slökkviliðsmanna þátt í slökkvistarfinu. Áfram verður slökkviliðið með vakt við húsið og er slökkviliðsbíll og tvo menn á vettvangi og verður þar fram eftir degi á meðan húsið er að kólna. 

Uppfært klukkan 11:14

„Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði Akureyrar er ekki talið að nokkur hafi verið inni í íbúðinni eins og óttast var. Lögreglan hefur náð tali af öllum íbúum hússins. Slökkvistarf stendur enn yfir en búið er að ráða niðurlögum eldsins. Er slökkvistarfi lýkur mun lögreglan taka við vettvanginum.

Óskað hefur verið eftir aðstoð tæknideildar lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu til þess að sjá um tæknirannsókn á vettvangi. Eldsupptök eru enn óljós og er rannsókn málsins á frumstigi. Óskað hefur verið eftir aðstoð áfallateymis Rauða kross Íslands fyrir íbúa hússins,“ segir í færslu lögreglunnar á Norðurlandi eystra á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert