Grimm framtíð

Elín Salbjörg, Elín Edda og Matthías ætla að taka þátt …
Elín Salbjörg, Elín Edda og Matthías ætla að taka þátt í barnaþingi en þau hafa öll áhyggjur af heiminum. mbl.is/Ásdís

Laura Lundy er prófessor á Norður-Írlandi og rekur miðstöð í Belfast sem sérhæfir sig í þátttöku barna. Hún kom nýlega til Íslands til að ræða kenningar sínar, einkum Lundy-módelið. Í Hörpu í næstu viku verður skapaður vettvangur fyrir samráð við börn.

Eitt af því sem stendur í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins er að ríkisstjórnir eigi að gera allt sem í valdi þeirra stendur til að virða lögin og felur það meðal annars í sér að leyfa börnum að tjá sig, hafa skoðanir og að rödd þeirra verði tekin alvarlega. Þá er ekki einungis átt við rétt einstaklingsins heldur einnig rétt þeirra til að hafa áhrif á lög og stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég er sérfræðingur í þessum málum og hef búið til líkan til að fara eftir sem ég kalla Lundy-módel,“ segir Lundy og hyggst hún kynna þetta líkan fyrir íslenskum ráðamönnum.

Ísland er tilbúið

Heldur þú að heimurinn sé tilbúinn til að hlusta á raddir barna?

„Ég held að margar ríkisstjórnir heims séu alls ekki tilbúnar. Viðbrögð sumra fullorðinna við Gretu Thunberg sýna það. En ég held að Ísland sé algjörlega tilbúið. Hægt er að líta til nokkurra landa og nota sem fyrirmyndir, eins og til Írlands, en þar er fimm ára reynsla af samvinnu ríkisstjórnar við börn og ungmenni. Hér er áhugi stjórnmálamanna og hér er sterkur umboðsmaður barna. Auk þess er landið lítið og fjöldi ungmenna ekki mikill þannig að það er mjög mikilvægt að þau fái að taka þátt í stefnumótun um málefni framtíðarinnar,“ segir hún.

Laura Lundy er prófessor sem sérhæfir sig í málefnum barna.
Laura Lundy er prófessor sem sérhæfir sig í málefnum barna. mbl.is/Ásdís

„Ég held að barnaþingið hérlendis gæti orðið frábært fordæmi fyrir önnur lönd. Og það merkilega við þetta þing er að hér voru börn valin af handahófi úr þjóðskrá.“

„Það er ekki nóg að raddir barna heyrist. Ég gagnrýni einmitt það í mínu líkani. Það þarf að leita eftir þeirra viðhorfum; leyfa þeim að tjá sig á þann hátt sem þau velja, ekki á þann hátt sem þú vilt að þau tjái sig. Það þarf að sjá til þess að réttir aðilar heyri í þeim, að einhver með völd heyri í þeim. Það er því ekki nóg að hlusta heldur þarf að gefa því gaum og taka þau alvarlega.“

„Þetta er framtíðin okkar“

Reykjavíkurbörnin Elín Edda, Matthías og Elín Salbjörg taka þátt í barnaþingi í næstu viku. Þau segjast spennt fyrir að fá að láta raddir sínar heyrast.

Um 160 börn voru valin með slembiúrtaki úr þjóðskrá til þess að taka þátt í barnaþingi sem haldið verður dagana 21. og 22. nóvember í Hörpu. Morgunblaðið náði tali af Matthíasi Loftssyni, tólf ára, Elínu Salbjörgu Agnarsdóttur, þrettán ára, og Elínu Eddu Arnarsdóttur, tólf ára. Undirbúningur hefur staðið síðan í maí en börnin hafa fundað á netinu.

„Við ætlum að tala um hvað sé hægt að bæta fyrir börn,“ segir Elín Salbjörg.

Hverju mynduð þið vilja koma á framfæri við stjórnvöld?

„Ég myndi vilja fá betri mat í skólanum,“ segir Matthías.

Stelpurnar segjast vilja setja loftslagsmálin á oddinn og fylgjast þær með baráttu Gretu Thunberg.

„Mér finnst hún frábær manneskja því þótt hún sé svona ung er hún að breyta svo miklu. Hún sýnir að það er létt að breyta hlutunum en stjórnvöld láta eins og það sé rosa erfitt,“ segir Elín Edda. „En það er örugglega hægt,“ segir hún.

Hvernig sjáið þið fyrir ykkur framtíðina?

„Það fer eftir því hvort við gerum eitthvað í loftslagsmálum hvort við getum bjargað einhverju,“ segir Elín Edda.

„Ef við grípum ekki inn í þá eyðileggjum við allt líf á jörðinni,“ segir Elín Salbjörg.

Finnst ykkur að það sé hlustað á börn?

„Það mætti vera meira því börn eru mjög hugmyndarík og með meira ímyndunarafl,“ segir Elín Edda.

„Þetta er líka framtíðin okkar,“ segir Elín Salbjörg.

 „Þetta er mikilvægt skref“

Sváfnir Ragnarsson býr á Laugum í Þingeyjarsveit. Hann hefur áhyggjur af framtíðinni ef ekkert verður gert í umhverfismálum.

 Sváfnir, sem er ellefu og hálfs árs, segist spenntur fyrir þinginu. Hann segist vera búinn að íhuga hvað hann vilji ræða um á því.

„Það er rosa mikilvægt að stjórnvöld hlusti á börn. Stundum hafa börn eitthvað mikilvægt að segja.“

Sváfnir segir mikilvægt að stjórnvöld hlusti á börn.
Sváfnir segir mikilvægt að stjórnvöld hlusti á börn. Ljósmynd/Aðsend

Heldur þú að stjórnvöld hlusti og að það verði einhverju breytt jafnvel?

„Já, það er mjög líklegt myndi ég segja. Þetta er mikilvægt skref. Ég er líka að vonast til að önnur lönd taki eftir þessu og haldi sín eigin barnaþing.“

Hvernig sérðu framtíðina?

„Ef við gerum ekkert er hún frekar grimm verð ég bara að segja.“

Greinin í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert