Tvö ný nórósmit á Hrafnistu í Hafnarfirði

Hrafnista á Hraunvangi í Hafnarfirði.
Hrafnista á Hraunvangi í Hafnarfirði. Ljósmynd/Aðsend

Tvö ný nórósmit greindust á Hrafnistu í Hafnarfirði um helgina. Að sögn forstöðumanns var síðasti sjúklingurinn að jafna sig þegar nýju smitin komu upp.

„Það er nú ekki mikið í 200 manna húsi. Maður verður samt svekktur því við héldum að þetta væri að verða búið,“ segir Árdís Hulda Eiríksdóttir, forstöðumaður Hrafnistu í Hafnarfirði, í samtali við mbl.is.

Í byrjun mánaðarins höfðu 80 íbúar og starfsmenn Hrafnistu í Hafnarfirði smitast af nóróveiru. Smitin sem greindust nú um helgina greindust hjá íbúum og er smitgát í gildi á tveimur deildum, annars vegar á deildinni þar sem þeir smituðu búa og hins vegar á deild þar sem einn sjúklingur er enn að jafna sig. Smitgát þýðir að öllum stöðum þar sem íbúar koma saman er lokað og fá íbúar t.a.m. mat sendan í íbúðir sínar í stað þess að snæða saman í matsal.

„Við tökum enga áhættu,“ segir Árdís. Þó að aðeins tveir séu veikir hafi það mikil áhrif þegar loka þurfi heilum deildum. „Við teljum þetta nánast búið en höfum auðvitað áhyggjur þegar ný smit koma upp. Við vinnum að því hörðum höndum að ekki verði frekari útbreiðsla og erum full af bjartsýni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert