Tillögu um íbúakosningu um Stekkjarbakka hafnað

Frá Stekkjarbakka við Elliðárdalinn.
Frá Stekkjarbakka við Elliðárdalinn. mbl.is/Árni Sæberg

Tillaga minnihluta borgarstjórnar um almenna atkvæðagreiðslu borgarbúa um deiliskipulag Stekkjarbakka Þ73 var rædd og felld í borgarstjórn í dag. Nokkur harka var í umræðunni, sem dróst mjög á langinn og lauk ekki fyrr en um kl. 21 í kvöld.

Línurnar eru nokkuð skýrar í þessu máli, sem snýst um fyrirhugaða uppbyggingu atvinnustarfsemi á Stekkjarbakka og sér í lagi heimild til þess að reisa þar gróðurhvelfingar. Borgarstjórnarmeirihlutinn styður verkefnið, en minnihlutinn stendur gegn því og segir alla uppbyggingu á Stekkjarbakka ganga á gæði Elliðaárdalsins.

Meirihluti og minnihluti eru afar ósammála um þau gæði sem felast í svæðinu sem þarna er undir. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri birti þannig gamla mynd af Elliðaárdalnum, sem sýndi hve mjög þetta svæði var raskað á árum áður.

Borgarstjóri birti gamla mynd sem sýndi hvernig Stekkjarbakkinn leit út …
Borgarstjóri birti gamla mynd sem sýndi hvernig Stekkjarbakkinn leit út úr lofti á árum áður. Skjáskot af fundi borgarstjórnar

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, tók í sama streng og sagði raunar að eitthvað þyrfti að gera á þessu svæði, til þess að það yrði meira aðlaðandi. Sagði hún að sem íbúi í grenndinni vissi hún til þess að á þessu svæði á Stekkjarbakkanum væru framdir glæpir, þar væri ekki hægt að skilja bílinn sinn eftir án þess að hann yrði fyrir skemmdum og þarna færu fram fíkniefnaviðskipti.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks, sagði í kynningu sinni á tillögunni að með því að leyfa uppbyggingu á þessu svæði væri verið að búta stórt grænt svæði af Elliðaárdalnum, sem væri hluti þess græna útivistarsvæðis sem borgarbúar kynnu svo vel að meta. Hann sýndi neðangreinda minn og sagði það af og frá að þetta svæði væri einungis „jaðar Elliðaárdalsins“ eins og meirihlutinn vildi meina.

Eyþór Arnalds birti þessa mynd af þróunarreitnum og sagði að …
Eyþór Arnalds birti þessa mynd af þróunarreitnum og sagði að verið væri að taka mikilvægan hluta af Elliðaárdalnum undir uppbyggingu. Skjáskot af fundi borgarstjórnar

Í bókun Sjálfstæðisflokksins um málið var vísað til þess að Landvernd, Hollvinasamtök Elliðaárdalsins og Stangveiðifélag Reykjavíkur hefðu öll gert athugasemdir við skipulagið.

„Það yrði óafturkræft fyrir ósnortna náttúruna ef gengið verður á dalinn með umfangsmikilli gróðurhvelfingu fyrir verslunarrekstur og atvinnustarfsemi,“ sagði meðal annars í bókun flokksins um málið.

Svona gæti útsýnið verið frá Stekkjarbakka nái áform um gróðurhvelfingu …
Svona gæti útsýnið verið frá Stekkjarbakka nái áform um gróðurhvelfingu fram að ganga. Teikning af vef Reykjavíkurborgar

Sakar borgarfulltrúa Samfylkingar um spillingu

Umræðurnar í borgarstjórn voru nokkuð harðar, sem áður segir. Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, sakaði Aron Leví Beck, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, um að vera tengdur þeirri uppbyggingu sem fyrirhuguð á vegum Aldin BioDome.

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins.
Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins. mbl.is/​Hari

Rifjaði Vigdís upp að árið 2015, áður en Aron Leví gekk í Samfylkinguna, fékk hann styrk frá nýsköpunarsjóði námsmanna til þess að vinna að rannsókn fyrir Spor í sandinn [fyrirtækið sem stendur á bak BioDome-verkefnið] og EFLU verkfræðistofu um hvernig best væri að nota affallsvatn úr Laugardalslaug til að hita upp gróðurhús.

Vigdís las í löngu máli upp úr viðtali mbl.is við Aron Leví frá þessum tíma og sagði að svona væru mál keyrð áfram af hálfu Reykjavíkur. „Svona er spillingin í Reykjavík,“ sagði Vigdís og gagnrýndi harðlega að Aron Leví hefði, á fundi skipulagsráðs í fyrra, tekið þátt í bókun um málið.

„Borgarfulltrúi Samfylkingarinnar er á kafi í þessu verkefni, kafi í þessari hugmyndafræði og er að keyra verkefnið áfram,“ fullyrti Vigdís.

Aron Leví Beck, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Aron Leví Beck, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Ljósmynd/Stefán Pálsson

Aron Leví hefur brugðist við þessum ásökunum Vigdísar á Facebook-síðu sinni. Þar segir hann að þegar rannsókn hans lauk, árið 2015, hafi leiðir hans og fyrirtækisins Spor í sandinn skilið og ekkert samstarf hafi verið í framhaldi af því.

Hann hafi þó alltaf lýst sig vanhæfan til þess að fjalla um málið í störfum sínum á vettvangi borgarmálanna, nema á þessum eina fundi í fyrra, en þá hafi bara verið fjallað um málið til kynningar. Hann vék af fundi er rætt var um málið á fundi borgarstjórnar í dag.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert