Aðgengi skólastjóra að myndefni Alþingis brot á persónuverndarlögum

Ákvörðun skrifstofu Alþingis að veita skólastjóranum aðgang að myndefni sem …
Ákvörðun skrifstofu Alþingis að veita skólastjóranum aðgang að myndefni sem sýndi ólögráða nemendur við fíkniefnaneyslu var talið brot á lögum um persónuvernd. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðgangur sem skrifstofa Alþingis veitti skólastjóra að myndefni úr eftirlitsmyndavélum þingsins, af ólögráða nemendum sem talin voru neyta kannabisefna á lóð þingsins, samrýmdist ekki lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þetta er niðurstaða Persónuverndar.

Úrlausn Persónuverndar kemur í kjölfar ábendingar um að Alþingi hafi veitt skólastjórnandanum aðgang að myndefninu, en málið er rakið til þess að kennarar við skólann komu að þremur nemendum skólans á lóð Alþingis við vímuefnaneyslu. Höfðu skólastjórnendur samband við foreldra barnanna, en foreldrar eins þeirra höfnuðu því að barnið hefði tekið þátt í neyslunni.

Óskaði skólastjórnandinn í kjölfarið eftir því við skrifstofu Alþingis að fá aðgang að myndabandsupptökum frá Alþingi. Hafnaði skrifstofan því að senda upptökurnar til skólastjórnandans, en heimilaði honum að sjá myndefnið.

Taldi Persónuvernd að upplýsa hefði átt forsjáraðila nemendanna um málið og að skrifstofan hefði myndefni sem sýndi neyslu kannabisefna. Skrifstofa þingsins benti hins vegar á að starfsmenn þingsins hafi ekki lagt mat á eða tekið afstöðu til þess sem fram kom á upptökunni né þekkt nöfn þeirra sem voru á upptökunni. Hins vegar sagði skrifstofan að Alþingi hefði þegar endurskoðað verklag sitt við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er með rafrænni vöktun.

Niðurstaða Persónuverndar er að heimild Alþingis til söfnunar myndefnis með rafrænni vöktun sé háð því skilyrði að ekki sé unnið frekar með efnið nema í samræmi við ákvörðun Persónuverndar eða samkvæmt beiðni lögreglu þegar um slys eða refsiverðan verknað er að ræða.

„Af framangreindu er ljóst að heimild til söfnunar umrædds myndefnis, sem varð til við rafræna vöktun á vegum Alþingis og innihélt viðkvæmar persónuupplýsingar, var háð því skilyrði að ekki yrði unnið frekar með efnið nema samkvæmt ákvörðun Persónuverndar eða með samþykki þeirra sem upptakan var af eða forsjáraðila þeirra. Var skrifstofu Alþingis því óheimilt, samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, að veita utanaðkomandi aðilum aðgang að myndefninu, að undanskilinni lögreglu,“ segir í niðurstöðu Persónuverndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert