Opnað fyrir heita vatnið á ný í fyrramálið

Svæði Veitna í Rangárþingi.
Svæði Veitna í Rangárþingi. kort/Veitur

Íbúar í Rangárþingi mega vænta þess að fá heitt vatn á ný í fyrramálið. Lokað hefur verið fyrir heita vatnið á ákveðnum stöðum á svæðinu á meðan unnið er að því að koma niður afkastameiri dælu í borholu í Kaldárholti. 

„Við áætlum að verkinu ljúki um klukkan 10 í fyrramálið. Við höfum minna magn af heitu vatni og höfum því þurft að færa lokanir á milli viðskiptavina svo enginn verði lengi án heits vatns,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir upplýsingafulltrúi Veitna. Notendur eru minntir á að fara sparlega með heita vatnið. 

Í haust bilaði dæla í annarri holunni í Kaldárholti. Sett var niður minni dæla til bráðabirgða og nú er henni skipt út. Ákveðið var að nýta hlýindin núna til framkvæmdanna. 

Mikil eftirspurn á svæðinu

Mikil eftirspurn er eftir heitu vatni á svæðinu og vegur mikil uppbygging á Suðurlandi þungt þar um. Unnið er að því að reyna að auka heitavatns framleiðsluna í Rangárþingi bæði til skammtíma og langtíma. Gripið hefur verið til ýmissa aðgerða til að auka afkastagetu borholanna, að sögn Ólafar. 

Stöðugar rannsóknir standa yfir að því að finna heitt vatn á svæðinu og bæta við borholu til að anna eftirspurn „Við erum í jarðhitaleit. Við vonumst til að virkja ný svæði og holur. Það er ekki á vísan að róa þegar við eigu við náttúruna og það er alltaf óvissa þegar farið er af stað þrátt fyrir miklar rannsóknir,“ segir Ólöf. Vonir standa til að bora eftir heitu vatni á næsta ári. Hvar það verður getur Ólöf ekki sagt nákvæmlega til um því rannsóknir standa yfir. 

Oft á síðasta vetri var sundlaugum á svæðinu lokað í nokkra daga vegna skorts á heitu vatni. Spurð hvort sagan muni endurtaka sig í vetur, segist Ólöf ekki geta útilokað það. Upphitun íbúðarhúsnæðis gengur fyrir öllu öðru og því er ekki ólíklegt að þeim verði lokað ef mjög kalt verður í veðri. Tíminn verði þó að leiða það í ljós. 

Í sumar var einnig óvenju mikill þurrkur og voru íbúar sömuleiðis hvattir til að fara sparlega með vatnið i Rangárþingi vegna lækkandi grunnvatnsstöðu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert