Réttindaganga barna í dag

Börnin ganga í lögreglufylgd niður Skólavörðustíg klukkan 14:30 í dag.
Börnin ganga í lögreglufylgd niður Skólavörðustíg klukkan 14:30 í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Í tilefni Barnaréttindaviku frístundaheimila frístundamiðstöðvar Tjarnarinnar og 30 ára afmælis barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna fara börn í 2. bekk í frístundaheimilunum Draumalandi við Austurbæjarskóla, Eldflauginni við Hlíðaskóla, Halastjörnunni við Háteigsskóla, Selinu við Melaskóla, Skýjaborgum við Vesturbæjarskóla og Undralandi við Grandaskóla í réttindagöngu í dag.

Markmið réttindagöngunnar er að veita börnunum vettvang og rými í almannarýminu til þess annars vegar að fagna lögvörðum réttindum sínum og  hins vegar að minna aðra á það að börn eiga ýmis réttindi sem varin eru með lögum.

Þar ber hæst lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða barnasáttmálann eins og hann er alla jafna nefndur.

Barna­sátt­máli Sam­einuðu þjóðanna varð að lög­um árið 1990 en all­ar þjóðir heims, að Banda­ríkj­un­um und­an­skild­um, hafa samþykkt sátt­mál­ann sem sam­an­stend­ur af 54 grein­um um rétt­indi barna. Sátt­mál­inn var full­gilt­ur fyr­ir Íslands hönd árið 1992 en full­gild­ing hans fel­ur í sér að Ísland er skuld­bundið að þjóðarétti til að virða og upp­fylla ákvæði sátt­mál­ans. Barna­sátt­mál­inn var lög­fest­ur hér á landi 2013 og er nú hluti af ís­lenskri lög­gjöf.

Gangan hefst kl. 14:30 á Skólavörðuholtinu og fer í lögreglufylgd niður Skólavörðustíginn og Bankastrætið, inn Austurstrætið að Pósthússtræti, þar sem farið er til hægri inn á Tryggvagötu uns komið er að Hafnarhúsinu þar sem borgarstjóri býður börnunum upp á sérstaka hátíðardagskrá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert