„Hann hefur forgangsraðað sinni setu á ráðherrastóli“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skoða þarf nánar tengsl Kristjáns Þórs Júlíussonar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra við fyrirtæki tengd Samherja. Ólíðandi er að seta einstaklings í ráðherrastóli sé tekin fram fyrir hagsmuni þess málaflokks sem hann fer með. Þetta segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, en hæfisreglur ráðherra voru ræddar á fundi nefndarinnar í morgun.

„Í fundarboðinu var óskað eftir því að hæfisreglur stjórnsýslulaga yrðu ræddar, því þær ná utan um störf ráðherra,“ segir Þórhildur Sunna um það sem fram fór á fundinum. „En líka hvaða hlutverki traust gegnir þegar kemur að því að meta hæfi æðstu stjórnenda, eins og t.d. ráðherra.“

Kristján þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Kristinn Magnússon

Spyr hvaða fyrirtæki tengist Samherja

Hún segir að það sem hún hafi tekið með sér út af fundinum hafi verið að til þess að hægt yrði að meta hæfi Kristjáns Þórs gagnvart málefnum sem snerta sjávarútveginn í heild, en ekki síst Samherja og tengd félög, þyrfti frekari yfirlegu og öflun gagna. „Það er vert að spyrja um hvort það liggi fyrir í Sjávarútvegsráðuneytinu hvaða fyrirtæki tengjast Samherja með beinum eða óbeinum hætti. Hvort út frá því sé hægt að meta hæfi ráðherra til að fjalla um málefni þeirra fyrirtækja, því hann hefur einungis lýst sig vanhæfan í stjórnvaldsákvörðunum gagnvart Samherja.“

Er það ekki nóg, að þínu mati? „Við vitum að Samherji er nátengdur öðrum félögum á markaði. Fyrst ráðherra hefur lýst því yfir að hann sé  vanhæfur til að taka stjórnvaldsákvarðanir gagnvart Samherja, þá hlýtur það sama að eiga við um fyrirtæki sem eru tengd þessu sama félagi. Það vekur upp þá spurningu hvort ráðherra viti hvaða fyrirtæki það eru.“

Er hann þá líka vanhæfur til að fjalla um málefni annarra sjávarútvegsfyrirtækja, sem hugsanlega eru í beinni samkeppni við Samherja? „Það er sannarlega eitthvað sem þyrfti að ræða,“ svarar Þórhildur Sunna. „En það var ekki rætt á þessum fundi.“

Ekki til þess fallið að efla traust

Hún segir að á fundinum hafi komið skýrt fram að íslenskir stjórnmálamenn standi aftar kollegum sínum á hinum Norðurlöndunum þegar komi að því að skapa traust á stjórnsýslunni. Meðferð Samherjamálsins sé ekki til þess fallið að efla traust á æðstu stjórnendum ríkisins eða að almenningi finnist að traust á ákvarðanatöku í æðstu stjórnsýslunni njóti forgangs umfram hagsmuni einstakra aðila til að sitja í tilteknu ráðuneyti. 

Mun krefja forsætisráðherra svara

Þórhildur Sunna hyggst krefja Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra svara á einn eða annan hátt um hversu mikil alvara henni hafi verið með því að láta vinna skýrslu um eflingu trausts á stjórnmálum. „Mér finnast þessi viðbrögð við þessu máli sýna að skilningur minn og forsætisráðherra, á því hvernig á að efla traust á stjórnmálum þegar á reynir, er ólíkur.“

„Mér finnst seta Kristjáns Þórs á ríkisstjórnarfundi, þar sem viðbrögð við Samherjamálinu voru ákveðin, mjög gagnrýniverð,“ segir Þórhildur Sunna sem segir viðbrögð ráðherrans hafa einkennst af vörn. „Hann hefur forgangsraðað sinni setu á ráðherrastól umfram það að traust geti skapast gagnvart aðgerðum ríkisstjórnarinnar í Samherjamálinu.“

Spurð hvort þetta hafi verið almenn afstaða nefndarmanna á fundinum segist Þórhildur Sunna ekki geta tjáð sig um það. Hún segir að nú muni hún setjast niður með sínum félögum, fara yfir málin og í kjölfarið verði næstu skref ákveðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert