„Stjórn Ríkisútvarpsins ber að hrinda því í framkvæmd að stofnað verði dótturfélag um samkeppnisrekstur þess samkvæmt lögum og ég hef þegar fundað með stjórnarformanni og varaformanni stjórnar og þessi undirbúningur er þegar hafinn.“
Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í samtali við mbl.is vegna skýrslu ríkisendurskoðunar sem kom út fyrir helgi þar sem fram kemur að Ríkisútvarpið hafi brotið lög með því að setja ekki samkeppnisrekstur þess í dótturfélag. Kári Jónsson, stjórnarformaður Ríkisútvarpsins, hefur sagt að óvissa hefði ríkt í þessum efnum sem eytt hafi verið með skýrslunni en haft er eftir Skúla Eggerti Þórðarsyni ríkisendurskoðanda í Fréttablaðinu í dag að aldrei hafi ríkt nein óvissa í þeim efnum.
Lilja segir aðspurð um þetta að löggjafinn hafi verið skýr í þessum efnum og dótturfélagið verði sett á laggirnar í samræmi við það. Sú vinna sé þegar komin í gang. Spurð um þá tillögu ríkisendurskoðunar að fjármála-og efnahagsráðuneyti ætti að fara með hlut ríkisins í Ríkisútvarpinu sinna fjárhagslegu eftirliti með því á meðan mennta- og menningarmálaráðuneyti fari áfram með faglegt eftirlit segir Lilja:
„Ég tel að Ríkisútvarpið eigi að vera undir mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem stjórnskipun Íslands gerir ráð fyrir að það eigi við um menninguna, tungumálið og fjölmiðla. Hins vegar varðandi ábendingar um stjórnunarlegt aðhald og stjórnun tel ég að við eigum að skoða það og fara yfir það hvernig við getum aukið gagnsæi og aðhald og ég tel að skýrslan sé gagnleg í þeim efnum enda legg ég mikla áherslu á að það ríki gagnsæi í öllu því sem hið opinbera er að sýsla með.“