Ákærður fyrir tilraun til manndráps

Maðurinn er ákærður af embætti héraðssaksóknara.
Maðurinn er ákærður af embætti héraðssaksóknara. mbl.is/Hjörtur

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa veist að öðrum manni í ágúst á þessu ári í bifreið á bílastæði fyrir utan Bónus á Nýbýlavegi. Stakk ákærði hinn manninn nokkrum sinnum með hníf í líkama og höfuð og sló hann nokkrum höggum með hnefa eða barefli í höfuð.

Í ákæru málsins kemur fram að sá sem fyrir  árásinni varð hafi hlotið 8 sm langan skurð á vinstri kinn sem náði inn í vörina og 8-9 sm langan skurð hægra megin sem náði inn að eyra. Þá fékk hann einnig skurði á háls og brjóstkassa, auk þess sem andlitsbein brotnaði.

Af hálfu þess sem varð fyrir árásinni er farið fram á tvær milljónir í miskabætur vegna málsins, en saksóknari fer fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar. Er hann ákærður samkvæmt 211. grein almennra hegningarlaga, en þar segir að hver sem sviptir annan mann lífi, skuli sæta fangelsi ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt. Er jafnframt vísað til 20. greinar sömu laga, en þar segir að hver sá sem hefur tekið ákvörðun um að vinna verk, sem refsing er lögð við í almennum hegningarlögum og ótvírætt sýnt þann ásetning í verki, hafi, þegar brotið er ekki fullkomnað, gerst sekur um tilraun til þess. Má dæma lægri refsingu þegar um tilraun er að ræða en ef brotið er fullframið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert