Andlát: Jóhann Eyfells

Jóhann Eyfells.
Jóhann Eyfells.

Jóhann Eyfells myndhöggvari lést í gær á hjúkrunarheimili í Fredericksburg í Texas í Bandaríkjunum. Jóhann var fæddur í Reykjavík 21. júní 1923 og ólst upp í Þingholtunum. Foreldrar hans voru Eyjólfur J. Eyfells (1886-1979), listmálari í Reykjavík, og Ingibjörg Eyfells (1895-1977), handavinnukennari og kaupmaður.

Jóhann fór til náms í arkitektúr og myndlist í Kaliforníuháskóla í Berkeley í Bandaríkjunum árið 1944 og stundaði einnig nám við Lista- og handíðaskóla Kaliforníu í Oakland. Í Kaliforníu kynntist Jóhann eiginkonu sinni, Kristínu Halldórsdóttur myndlistarmanni, f. 1917

Árið 1953 tók Jóhann B.Arch-próf í arkitektúr frá Flórídaháskóla í Gainesville og 1964 tók hann MFA-próf í skúlptúr frá sama skóla. Á seinni hluta sjöunda áratugarins vann Jóhann að listsköpun sinni á Íslandi og kenndi einnig við Myndlistar- og handíðarskólann í Reykjavík. Á þessum tíma voru Jóhann og Kristín mjög áberandi og framsækin í listalífinu í Reykjavík og tóku þátt í fjölda sýninga á verkum á Skólavörðuholti. Árið 1969 varð Jóhann prófessor við Flórídaháskóla í Orlando og starfaði þar til 1999.

Jóhann hélt einkasýningar víða um heim, meðal annars stóra og glæsilega sýningu hjá Listasafni Íslands 1992. Einnig tók hann þátt í fjölda samsýninga og tóku þau hjónin bæði þátt í ýmsum sýningum. Þá var Jóhann með Hreini Friðfinnssyni fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1993.

Kristín, kona Jóhanns, lést árið 2002 og í kjölfarið lagði Jóhann allt kapp á að halda nafni hennar á lofti. Hann lét steypa fjölmarga af skúlptúrum hennar í brons og það í mörgum eintökum. Jóhann flutti frá Orlando til Texas árið 2004 og keypti þar búgarð hvar hann vann sleitulaust að listsköpun sinni hvern einasta dag. Meðal listaverka Jóhanns má nefna Íslandsvörðuna, verk úr bronsi við Sæbraut í Reykjavík.

Sonur Jóhanns og Auðar Halldórsdóttur er Ingólfur Eyfells, f. 1945, verkfræðingur í Garðabæ.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert