Ræddi íslenska hestinn við drottninguna

Katrín Jakobsdóttir er hún mætti á Nató-fundinn í morgun.
Katrín Jakobsdóttir er hún mætti á Nató-fundinn í morgun. AFP

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi við Elísabetu Englandsdrottningu um íslenska hestinn og við Karl Bretaprins um laxveiðar er hún heimsótti Buckingham-höll í fyrsta sinn í gærkvöldi í tilefni af leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í London.

„Ég hafði aldrei komið þarna áður og þetta var skemmtileg reynsla. Ég ræddi þarna við drottninguna og hún rifjaði upp ferð sína til Íslands og íslenska hestinn. Það er ljóst að íslenski hesturinn á dygga aðdáendur hjá bresku konungsfjölskyldunni þannig að ég fylltist stolti fyrir hönd íslenska hestsins,“ segir Katrín og bætir við að gangtegundir íslenska hestsins, þar á meðal töltið, hafi komið til umræðu.

Drottningin heimsótti Ísland árið 1990, auk þess sem Karl hefur komið hingað og rennt fyrir lax.

Leiðtogar Nató ásamt Elísabetu Englandsdrottningu og Karli Bretaprins í gærkvöldi.
Leiðtogar Nató ásamt Elísabetu Englandsdrottningu og Karli Bretaprins í gærkvöldi. AFP

Leiðtogafundi Nató, sem var hátíðarfundur í tilefni 70 ára afmælis bandalagsins, lauk fyrr í dag með yfirlýsingu sem bandalagsríkin sendu frá sér.

Katrín segir að spenna hafi legið í loftinu fyrir fundinn, ekki síst vegna skeytasendinga á milli Bandaríkjaforseta og Frakklandsforseta. Vegna þess að um afmælisfund var að ræða var hann aftur á móti óvenjulegur og öllu styttri en venjan er. Hún segir fundinn hafa verið mjög rólegan og ekki hafi dregið til svipaðra tíðinda og á fundinum sem var haldinn í fyrra.  

„Stóru umræðurnar voru eins og í fyrra krafa Bandaríkjanna um aukin framlög annarra ríkja bandalagsins til her- og varnartengdra málefna og hins vegar þau sjónarmið sem komu upp frá ýmsum öðrum ríkjum að ef skipta eigi þessum útgjöldum með réttlátari hætti eigi líka að deila áhrifunum með jafnari hætti,“ segir hún.

Katrín, til hægri á myndinni, ásamt framkvæmdastjóra Nató og hópi …
Katrín, til hægri á myndinni, ásamt framkvæmdastjóra Nató og hópi þjóðarleiðtoga, þar á meðal Edrogan Tyrklandsforseta, Trump Bandaríkjaforseta, og Merkel, kanslara Þýskalands. AFP

Talaði um afvopnunarmálin

Sjálf gerði hún að sérstöku umtalsefni afvopnunarmálin og að þeir samningar væru í upplausn. „Ég lagði á það mikla áherslu að þetta ætti að vera forgangsmál Atlantshafsbandalagsins að koma á slíku pólitísku samtali á æðstu stöðum til að hægt sé að ná aftur einhverri samstöðu um afvopnun, ekki síst á sviði kjarnavopna. Það voru mjög margir þjóðarleiðtogar sem nefndu þessi mál, þannig að þau voru töluvert í umræðunni, enda hefur framkvæmdastjóri Nató verið að taka þau upp.“

Einnig ræddi Katrín loftslagsmálin, sem hafa ekki ratað inn í stefnu bandalagsins, stöðuna í Norður-Atlantshafinu og sýn Íslendinga á mikilvægi friðsamlegrar sambúðar þar.

Að lokum ræddi hún nýja stefnu Atlantshafsbandalagsins um forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni og lýsti yfir stuðningi við þá vinnu. Lagði hún áherslu á að henni þyrfti að framfylgja í verki.

AFP

„Þetta voru alvöruumræður“

Spurð hvað henni fyndist um kröfuna um aukin framlög annarra ríkja til Nató sagðist hún hafa rætt um að Ísland væri herlaust land og okkar þátttaka í sambandinu því á borgaralegum forsendum. „En mér finnst ekkert athugavert við það að fólk ræði fjármögnunina. Eðlilega hlýtur hún að vera til umræðu á svona fundi. Það sem mér fannst athygli vert var að það voru mjög opnar umræður um þessi mál. Þetta voru alveg alvöruumræður,“ greinir hún frá.

Flokkur hennar VG er mótfallinn veru Íslands í Nató. „Þetta er hluti af mínum embættisskyldum sem ég sinni eins og öllum öðrum og stend þá með okkar samþykktu þjóðaröryggisstefnu en auðvitað legg ég áherslu á þá þætti sem mér finnst mikilvægt að heyrist á þessum vettvangi,“ segir hún um þátttöku sína í fundinum.

Aðspurð segist hún alltaf tala við alla á fundum sem þessum. Hún átti einn formlegan tvíhliða fund með forsætisráðherra Spánar. „Við ræddum stöðuna þar. Þar er verið að mynda nýja ríkisstjórn. Hann reifaði sérstaklega Katalóníu og stöðuna þar og fór yfir hana, sem er auðvitað viðkvæm og verður flókið úrlausnarefni,“ segir forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert