Reykjavíkurflugvöllur áfram á sínum stað

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra sagði að Reykjavíkurflugvöllur verði ekki fluttur fyrr en annar jafn góður eða betri flugvöllur væri í boði. Ráðherra var spurður um samkomulag sem var undirritað í síðustu viku þar sem meðal annars átti að kanna möguleikann á flugvelli í Hvassahrauni.

Ráðherra sagði að samkomulagið lúti að því að reyna að eyða sem mestri óvissu og nú eigi að kanna til hlítar hvort mögulegt sé að fara í Hvassahraun.

Jón Þór Þorvaldsson, þingmaður Miðflokksins, spurði ráðherra út í flugvallamálin á þingi. Hann benti á að í samkomulaginu frá 2013 sé talað um að norður/suðurbrautinni á Reykjavíkurflugvelli verði lokað 2022.

Jón Þór Þorvaldsson, þingmaður Miðflokksins.
Jón Þór Þorvaldsson, þingmaður Miðflokksins. Haraldur Jónasson/Hari

Erum við að fara að horfa upp á að Reykjavíkurflugvöllur muni missa norður/suðurbrautina á árinu 2022? Hvar verður þá æfinga-, einka- og kennsluflugi fundinn staður? Hvað verður um innanlandsflugið þar sem nýtingarstuðull þess flugvallar mun ekki ná 95% nothæfisstuðli?“ spurði Jón Þór.

„Það er akkúrat það sem þetta samkomulag gengur út á, að eyða þeirri óvissu hvort samkomulagið sem var skrifað undir haustið 2013 kalli fram möguleika á að loka Reykjavíkurflugvelli. Það verður ekki,“ sagði Sigurður Ingi.

Hann bætti því við að vinna við Hvassahraun, ef hún verður jákvæð, muni taka 15 til 17 ár.

Með öðrum orðum verður Reykjavíkurflugvöllur í það minnsta á sínum stað næstu 15–20 árin,“ sagði ráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert