Skylt að sleppa laxi úr Elliðaánum

Ungir sem aldnir þurfa að sleppa öllum laxi sem veiddur …
Ungir sem aldnir þurfa að sleppa öllum laxi sem veiddur er. mbl.is/Kristinn Magnússon

Veiðimönnum verður skylt að sleppa öllum laxi sem veiddur er í Elliðaánum á næsta ári og þeim verður einungis heimilt að veiða á flugu. Stjórn Stangveiðifélags Reykjavíkur greindi frá þessum breytingar í dag en þær koma í kjölfarið á rannsóknum á laxastofni Elliðaánna.

Fram kemur á vef Stangveiðifélagsins að fiskifræðingar Hafrannsóknastofnunar hafi rannsakað vöxt og viðgang stofnsins, þróun yfir áratuga langt tímabil, fjölda gönguseiða, veiðihlutfall og fleira.

Niðurstöður vísindamannanna kalla á aðgerðir sem hafa það að markmiði að vernda laxastofn Elliðaánna enn frekar. Hrygningarstofn ánna hefur farið minnkandi og langoftast verið undir meðaltali frá því 1990. Engin teikn eru á lofti um að sú þróun breytist nema gripið sé til aðgerða,“ segir á vef Stangveiðifélagsins.

Þar segir enn fremur að engin einföld sé skýring sé á þessari þróun en ljóst megi vera að þar spili líkast til margir þættir saman. Meðal þess sem nefnt hefur verið er að umferð við árnar hefur aukist, mannvirkjum á svæðinu fjölgað og byggð færst nær ánum.

Með hliðsjón af framangreindu má vera ljóst að SVFR getur ekki setið hjá þegar hætta steðjar að hinum einstaka laxastofni Elliðaánna,“ segir á vefnum þar sem kemur fram að ákvörðunin sé tekin að vel ígrunduðu máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert