Hefur áhyggjur af stuðningi Póllands

Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður Dómarafélags Íslands.
Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður Dómarafélags Íslands. mbl.is/Golli

Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður Dómaraféags Íslands, hefur í dag lýst yfir áhyggjum af stuðningi pólskra yfirvalda við málstað íslenska ríkisins í Landsréttarmálinu, sem tekið verður fyrir hjá yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu á næstunni.

Dómarinn ritaði á Facebook að stuðningurinn væri „verulegt áhyggjuefni“, óháð því hvað fólki þætti um Landsréttarmálið, þar sem pólskir dómarar hafi undanfarin ár sætt „ofsóknum og skipulögðum rógsherferðum“ ríkisstjórnar Póllands, sem vilji afnema sjálfstæði dómstóla í landinu, beita kynbundnu misrétti og takmarka sjálfsögð grundvallarréttindi hinsegin fólks.

„Íslensk stjórnvöld eiga forðast slíkan félagsskap eins og heitan eldinn,“ skrifaði Kjartan Bjarni. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá stuðningi Póllands í gærkvöldi, en ríkisstjórn landsins skilaði beiðni um að fá að skila inn formlegri greinargerð vegna Landsréttarmálsins til yfirdeildar MDE.

Það gerðu einnig umboðsmaður almennings í Georgíu og mannréttindasamtökin The Helsinki Foundation for Human Rights í Varsjá. Í beiðnum þeirra kom fram stuðningur við niðurstöðu Mannréttindadómstólsins í málinu frá því í mars, en ríkisstjórn Póllands tekur afstöðu með íslenskum stjórnvöldum, sem ætla að reyna að fá niðurstöðu MDE hnekkt í yfirdeildinni.

Fram kemur í beiðni pólsku stjórnarinnar að málið skipti miklu máli og hafi þýðingu fyrir þær breytingar sem gerðar hafa verið og ríkisstjórnin vilji gera á skipan dómsmála í Póllandi.

Íslensk yfirvöld hafa sagt mikilvægt að greina málið frá málum sem snerti dómstóla í öðrum ríkjum Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert