Útboð borgarinnar á umferðarljósum afturkallað

Stýring umferðarljósa er ekki auðvelt viðfangsefni, en mikilvægt fyrir því.
Stýring umferðarljósa er ekki auðvelt viðfangsefni, en mikilvægt fyrir því. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Reykjavíkurborg hefur afturkallað útboð á rammasamningi um stýribúnað umferðarljósa vegna formgalla. Þetta var samþykkt á fundi innkauparáðs borgarinnar á fimmtudag. Áður hafði staðið til að samþykkja tilboð Smith og Norland í verkið.

Harðar deilur höfðu verið í borgarstjórn í október þegar samþykkt var að ráðast í útboðið, en Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, sakaði meirihlutann um að grafa undan samgöngusáttmálanum, sem til stóð að undirrita daginn eftir, þar sem þar er kveðið á um samstarf sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðarinnar um stýringu umferðarljósa.

Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Ber meirihlutann þungum sökum

Vigdís segir í samtali við mbl.is að ljóst sé að samkomulagið hafi verið mun umfangsmeira en borgarstjóri hafi upphaflega haldið fram. „Þetta eru ekki bara einhver nokkur umferðarljós eins og talað var um, heldur framkvæmd upp á 550 milljónir, sem þeir ætluðu að ráðast í einir,“ segir hún og vísar aftur til samkomulagsins um sameiginlega áætlun sveitarfélaganna um stýringu ljósanna. Þá sakar hún meirihlutann um að ganga erinda eins fyrirtækis.

Alexandra Briem, varaborgarfulltrúi Pírata sem situr í innkauparáði, segir í samtali við mbl.is að umræddur formgalli felist í að kærufrestur, sem þátttakendum útboðs er veittur hafi verið of skammur. Hann hafi verið miðaður við þann tíma er útboðið var auglýst í Stjórnartíðindum hér á landi, en ekki Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. „Ég á ekki von á öðru en að útboðið fari fram að nýju,“ segir hún; ekki standi til að hætta við verkefnið. „En þetta er athyglisverður málflutningur hjá Vigdísi,“ segir Alexandra. Annars vegar sé Vigdís ósátt við að borgin sé ekki löngu búin að drífa í því að taka upp snjallari ljósastýringu, og svo skyndilega að hún skuli síðan ætla að gera það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert