Búið að taka mikið á Atla og fjölskyldu hans

Atli Már Gylfason ásamt lögmanni sínum, Gunnari Inga Jóhannssyni.
Atli Már Gylfason ásamt lögmanni sínum, Gunnari Inga Jóhannssyni. mbl.is/​Hari

„Þetta er náttúrlega niðurstaðan sem ég vonaðist eftir, en maður náttúrlega býr sig undir það versta. Þetta er búið að taka þrjú ár og búið að taka mikið á mig og sérstaklega fjölskyldu mína, sem hefur mátt þola alls konar hótanir og leiðindi undanfarin þrjú ár, en ég vona að þetta sé lokahnykkurinn í þessu máli,“ segir Atli Már Gylfason blaðamaður, í samtali við mbl.is.

Máli Guðmundar Spartakusar Ómarssonar gegn honum var vísað frá af Hæstarétti Íslands í morgun. Með frávísuninni féllst Hæstiréttur á aðalkröfu Atla Más í málinu, en hann og lögmaður hans hafa allt frá því málareksturinn hófst í Héraðsdómi Reykjaness sagt að vísa ætti málinu frá þar sem Guðmundur Spartakus var hvergi nafngreindur í umfjöllunum Atla Más um óútskýrt hvarf Friðriks Kristjánssonar í Suður-Ameríku árið 2013.

„Ég held að það séu næstum því upp á dag komin þrjú ár síðan þetta mál hófst með birtingu þessara frétta sem ég skrifaði um hvarf Friðriks, sem hefur ekkert spurst til síðan 2013. Það eru komin sex ár síðan hann hvarf, þrjú ár síðan þetta mál fór af stað og ég vil árétta það og ég hvet alla til þess að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu sem telja sig búa yfir einhverjum upplýsingum sem geta hjálpað fjölskyldu Friðriks sérstaklega, að fá einhvern endapunkt á þetta mál,“ segir Atli Már.

Niðurstaða Hæstaréttar setur væntanlega punkt fyrir aftan þetta mál, en ef Guðmundur Spartakus vill enn lögsækja Atla Má þarf hann að byrja slíkt mál algjörlega á byrjunarreit. Hann var dæmdur til að greiða Atla Má eina milljón króna í málskostnað fyrir héraðsdómi, auk þess sem honum er gert að greiða 1,6 milljónir í málskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

„Guðmundur Spartakus Ómarsson skuldar mér eina milljón króna eftir þessi þrjú ár og það er nú lítil sárabót fyrir fjölskyldu Friðriks sem enn þá leitar hans,“ segir Atli Már.

Dómur Hæstaréttar Íslands í málinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert