Bætir í veðrið hægt og hægt

Myndin er tekin nú um 15:30, en húsið sem sést …
Myndin er tekin nú um 15:30, en húsið sem sést grilla í er í aðeins 20 metra fjarlægð. Ljósmynd/Ólafur Bernódusson

„Það er brjálað veður og það er að bæta í hægt og hægt. Það er ekkert skyggni. Þetta er alveg eins og spáð var. Það er bloti í þessu, ég sé það á trjánum í garðinum að þau eru að sligast undan þessu,“ segir Ólafur Bernódusson fréttaritari Morgunblaðsins á Skagaströnd. 

Fáir voru á ferli í morgun enda flestum stöðum lokað, leik-, grunn- og framhaldsskólunum, pósthúsinu og bankaútibúinu svo fátt sé nefnt. 

Eins og staðan var núna rétt fyrir klukkan þrjú vissi hann ekki um neitt tjón. Rafmagnið var aðeins farið að flökta rétt áðan. „Maður vonar bara það besta,“ segir hann. Ólafur hafði undirbúið sig vel, fór í búðina í gær að birgja sig upp. „Það var bara fjör í búðinni í gær. Fólk var að kaupa aðeins ríflega,“ segir hann og hlær. Flestir sem hann hafði rætt við ætluðu að taka mark á veðurspánni og halda sig heima við í dag enda ekki vit í öðru.  

„Ég sit hér og reikna út vatnstjón á milli þess sem ég gríp í að tálga jólasveina,“ sagði hann glaðlega spurður hvað hann hefði við að vera í óveðrinu. 

Um hálf 12 var veðrið orðið nokkuð slæmt á Skagaströnd, …
Um hálf 12 var veðrið orðið nokkuð slæmt á Skagaströnd, en eftir hádegi skall það á með látum. mbl.is/Ólafur Bernódusson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert