Enn kolvitlaust veður, en þó farið að ganga niður

Veðrið hefur verið kolvitlaust á Norðurlandi vestra frá því fyrri …
Veðrið hefur verið kolvitlaust á Norðurlandi vestra frá því fyrri partinn í gær og þótt gengið hafi að leysa flest verkefni á enn eftir að koma rafmagni á og moka vegi. Stórhríð verður í umdæminu fram eftir degi. mbl.is/Ólafur Bernódusson

Enn er kolvitlaust veður í Skagafirði og Húnavatnssýslunum, þótt veðrið sé farið að ganga niður. Aðgerðir lögreglu og viðbragðsaðila hafa gengið vel á svæðinu frá í gær og ef frá er talið rafmagnsleysi víða hefur ekkert stórkostlegt komið upp sem ekki var hægt að ráða við. Þetta segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, í samtali við mbl.is, en veðrið í gær var hvað verst í umdæmi lögreglunnar.

Mokuðu sig reglulega inn og út úr stjórnstöðinni

Stefán segir að versta veðrið í umdæminu hafi verið í Húnavatnssýslunum, þar hafi bæði verið hvassara en í Skagafirði og þá hafi snjóað þar mun meira. Nefnir hann að aðgerðastjórn fyrir Húnavatnssýslurnar, sem staðsett er á Blönduósi, hafi þurft að moka sig reglulega út og inn úr húsinu þar sem þeir hafa aðstöðu. Þá hafi hópur björgunarsveitarmanna á Skagaströnd farið fjórum eða fimm sinnum í að moka upp úr smábátum í höfninni. Voru þeir orðnir svo þungir af snjó að áhyggjur voru uppi um að þeir myndu fara niður. „Það er allt kolófært þarna,“ segir Stefán, sem sjálfur er staðsettur á Sauðárkróki.

Rafmagnslaust hefur verið víða í umdæminu og hefur Sauðárkrókur meðal annars verið úti að mestu frá því klukkan 15 í gær. Þá hefur einnig verið rafmagnslaust á Hvammstanga, en Blönduós hefur þó haldist inni. Stefán segir að rafmagn sé nú skammtað á Sauðárkróki, en sérstaklega sé hugsað til að beina rafmagni á staði sem geti illa verið án rafmagns vegna tjóns. Er Sauðárkrókslína milli Sauðárkróks og Varmahlíðar í sundur.

Veltu snjóbíl á leið að laga rafmagnslínur

Á Hvammstanga fór flokkur frá Rarik í gær með snjóbíl til að reyna að laga línu inni í Hrútafirði, en ekki vildi betur til en að bíllinn valt. Segir Stefán að engin meiðsl hafi orðið á fólki, en senda þurfti snjóbíl frá Borðeyri til að sækja mannskapinn. Gekk það verkefni eftir í nótt og segir hann að nú sé komin vinna í gang við að taka snjó og ísingu af spennuvirki í Hrútatungu svo rafmagn komist aftur á. „Við vitum samt ekki 100% hvað er að,“ segir hann, en fyrsta verkefnið er að reyna að þrífa snjó og seltu af spennuvirkinu.

Meðal annarra verkefna í gær og nótt hafi verið að koma fólki niður á Stað í Hrútafirði, en þar er tengipunktur fyrir síma fyrir Norðurland vestra. Segir Stefán að áhyggjur hefðu verið uppi um að missa síma- og tetra-samband ef upp kæmi bilun þar. „Við komumst í það í nótt og unnið er að því að tryggja sambandið,“ segir hann.

Stóra verkefnið að koma á rafmagninu

Sem fyrr segir telur Stefán að búið sé að ná utan um öll helstu verkefni sem komu upp í gær og í dag, en það sem liggi fyrir sé að koma rafmagninu á. „Það er stóra verkefnið þegar um hægist,“ segir hann.

Stefán þakkar viðbrögðum almennings, en hann segir ljóst að skilaboð lögreglu og björgunaraðila um hvað væri í vændum hafi komist skýrt til skila. „Fólk tók þau alvarlega og því var lítið um útköll þar sem þurfti að fara í björgunarleiðangra upp á heiðar þar sem fólk sat fast, eða útköll vegna foks á lausamunum,“ segir Stefán. „Þetta segir manni að fólk var vel búið að ganga frá sínum hlutum, með sitt á hreinu og ekki á þvælingi. Þannig gátu viðbragðsaðilar sinnt sínum stærri verkefnum.“

Veðrið er áfram slæmt í umdæminu og segir Stefán að skólahald liggi meðal annars niðri í dag. Vegagerðin sé byrjuð að skoða með að hreinsa vegi, en fólk verði að bíða og sjá og sýna þolinmæði meðan unnið sé að því að koma málum í lag að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert