Hörð vetrarveður ofviða raforkukerfinu

Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri segir ljóst að byggja þurfi upp innviði …
Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri segir ljóst að byggja þurfi upp innviði raforkukerfisins. Það ráði ekki við slæm vetrarveður. mbl.is/RAX

„Það er deginum ljósara eftir þetta gjörningaveður sem gengið hefur yfir að það vantar mjög mikið upp á það að innviðir raforkukerfisins séu í lagi. Það hlýtur að vera forgangsverkefni stjórnvalda, eftir að farið verður að kortleggja þær afleiðingar og það tjón sem þetta veður hefur valdið, að hlutast til um að gerðar verði ráðstafanir til þess að byggja upp raforkuinnviðina. Það vantar mikið upp á að þeir séu í lagi.“

Þetta segir Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga á Sauðárkróki, í samtali við mbl.is, en rafmagnslaust hefur verið í bænum, sem og víða annars staðar á Norðurlandi, frá því í gær vegna óveðursins sem gekk yfir landið. Komið hefur fram að það gæti tekið nokkrar vikur að koma rafmagni á alls staðar aftur. Þórólfur segir að raforkukerfið sé einfaldlega orðið gamalt og þreytt og þoli ekki hörð vetrarveður.

„Ég tel að næsta verkefni sem stjórnvöld standa frammi fyrir hljóti fyrir vikið að vera að nota arð af afkomu Landsvirkjunar til að styrkja innviðauppbyggingu raforkukerfisins áður en farið verður að huga að því að dreifa þeim fjármunum til annarra þátta sem hafa myndast í raforkukerfinu. Það er auðvitað grundvallaratriði að raforkuöryggi sé tryggt bæði í þéttbýli og dreifbýli. Við sjáum bara eftir þetta að raforkukerfið er mjög vanþróað víða og vanbúið til að taka við hörðum veðrum,“ segir Þórólfur enn fremur.

Hafa ekki getað framleiða neitt frá í gær

„Þegar rafmagnið fór hjá okkur fjótlega eftir hádegi í gær þá náttúrlega drapst á allri vinnslu hjá okkur, bæði í frystihúsi, sláturhúsi, mjólkursamlagi og steinullarverksmiðjunni. Það er ekkert rafmagn komið enn til þess að framleiða neitt. Það er bara ljósarafmagn sem fæst úr tveimur litlum dísilrafstöðvum sem Rarik er með hérna sem anna einungis broti af bænum. Þannig að það verður ekkert framleitt í dag og við teljumst nokkuð góðir ef eitthvað kemst í gang fyrir morgundaginn. Miðað við þær frengir sem við höfum þá er langt því frá nokkur trygging fyrir því að við höfum rafmagn á morgun.“

Spurður hvort Skagfirðingabúð, matvöruverslun kaupfélagsins, hafi verið opin segir Þórólfur að rafmagn hafi fengist til þess að halda versluninni opinni. Kaupfélagið hafi ekki beðið sérstaklega um það en Rarik hafi ákveðið það og mjög lítið rafmagn þyrfti í raun til þess að halda versluninni gangandi. Hvað starfsmannamál í framleiðslufyrirtækjum kaupfélagsins varðar segir Þórólfur að aðeins hluti starfsmannanna hafi verið við störf. Aðallega til þess að sjá um þrif og annað slíkt. Einhver sjór hafi farið inn í Fiskiðjuna og sláturhúsið hafi rétt sloppið í þeim efnum og þurft hafi að tryggja að ekki yrði meira tjón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert