Starfshópur um raforkuinnviði stofnaður á morgun

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Magnus Fröderberg/Norden.org

Starfshópur um nauðsynlega innviðauppbyggingu raforkukerfis verður skipaður á morgun. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is. Hópnum er ætlað að fara yfir og forgangsraða þeim aðgerðum sem ráðast ber í til að koma í veg fyrir að viðlíka rafmagnsleysi, og varað hefur víða á landsbyggðinni frá því á þriðjudag, geti komið fyrir á ný.

„Þetta er umfangsmesta rafmagnsleysi sem við höfum séð á síðari árum,“ segir Katrín og bætir við að samfélagsbreytingar hafi gert það að verkum að fjarskiptakerfi séu sífellt háðari rafmagni. 

Katrín áætlar að skipan hópsins verði samþykkt á ríkisstjórnarfundi í fyrramálið, en aðspurð segir hún að „lykilfólk úr ráðuneytum“ muni skipa hópinn. Honum er ætlað að skila tillögum til fjögurra ráðherra, forsætis-, fjármála-, iðnaðar- og samgönguráðherra, sem muni fara yfir þær.

Á morgun heldur Katrín, ásamt ráðherrum samgöngu-, orku- og dómsmála norður í land þar sem ætlunin er að kynna sér afleiðingar fárviðrisins. „Ég held að það skipti máli fyrir okkar skilning á stöðu mála að kynna okkur aðstæður,“ segir Katrín.

Þjóðaröryggisráð fundaði í dag og voru þar samankomnir fulltrúar helstu viðbragðsaðila. Segir Katrín að tilgangur fundarins hafi fyrst og fremst verið að samræma aðgerðir, „til að tryggja að allir séu á sömu blaðsíðu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert