Ævintýraleg ferðalok á Íslandi

Ferðalok er aðeins aðgengileg sem hljóðbók í gegnum Storytel.
Ferðalok er aðeins aðgengileg sem hljóðbók í gegnum Storytel.

„Ég hreifst strax af þessari sögu og sá að hún væri ekki bara mjög öflug og dramatísk í sjálfri sér heldur ætti líka erindi við almenning út frá fordæmisgildinu, en fjórðungur fylgdarlausra barna á flótta lendir í mjög alvarlegu ofbeldi.“

Þetta segir Sigursteinn Másson, sem hefur gefið út hljóðbókina Ferðalok, þar sem hann segir sögu Hussains, nítján ára gamals pilts sem flúði frá Afganistan eftir að Talíbanar drápu föður hans. Á flóttanum lenti hann í miklum hörmungum og ofbeldi áður en hann komst loks til Íslands og sótti um alþjóðlega vernd.

Aðspurður hvernig það er tilkomið að hann skrifar sögu Husseins segir Sigursteinn að eitt hafi leitt af öðru eftir að hann fór að kynna sér málefni flóttamanna af eigin raun eftir að hann las viðtal við þau Nasr Mohammed Rahim og Sobo Anw­ar Has­an, kúrdíska fjölskyldu þá með tæplega tveggja ára gamalt barn, á mbl.is.

Ekki aftur snúið

„Ég ákvað, í stað þess að vera þiggjandi upplýsinga um þessi mál, að kynna mér þetta af eigin raun. Ég ætlaði svosem ekkert að blandast þessu meira en svo er það bara þannig að þegar maður kynnist fólki í svona mikilli neyð, þá er ekkert aftur snúið. Maður verður bara að gera það sem maður getur gert,“ segir Sigursteinn.

„Þau eru brotin kerfisbundið niður af hálfu glæpaklíka. Þar sem …
„Þau eru brotin kerfisbundið niður af hálfu glæpaklíka. Þar sem þúsundum er þjappað saman í einhverjar búðir þar sem bæði er lítil þjónusta og eftirlit verður frumskógarlögmál sem fylgdarlaus börn, sem skipta þúsundum í Grikklandi, lenda hryllilega í,“ segir Sigursteinn. AFP

Hann kynntist Hussein í gegnum aðra flóttamenn og heillaðist strax af sögu hans. Hussein lenti í miklum hrakförum í flóttamannabúðunum í Grikklandi, þar sem Sigursteinn segir að fylgdarlaus börn séu einstaklega varnarlaus. „Þau eru brotin kerfisbundið niður af hálfu glæpaklíka. Þar sem þúsundum er þjappað saman í einhverjar búðir þar sem bæði er lítil þjónusta og eftirlit verður frumskógarlögmál sem fylgdarlaus börn, sem skipta þúsundum í Grikklandi, lenda hryllilega í,“ segir Sigursteinn, en hann fór einmitt sjálfur út til Grikklands og kynnti sér aðstæður í flóttamannabúðum.

Í Ferðalokum rekur Sigursteinn sögu Husseins, sem var nýorðinn 17 ára þegar flótti hans hófst, allt frá því þegar faðir hans, sem var lögreglumaður í afskekktu fjallahéraði í Afganistan, var drepinn af Talíbönum, í gegnum Tyrkland og Grikkland og loks til Íslands.

Efaðist stundum um mannúðarsjónarmiðin

„Hussein kemur úr sárafátækt og ofboðslegum einfaldleika og erfiðu lífi og lendir síðan í þessari ógn þegar Talíbanar yfirtaka svæðið og drepa pabba hans. Hann er sjálfur í lífshættu og á innan við tveimur sólarhringum missir hann allt, fyrst pabba sinn og síðan fjölskyldu sína og allt sem hann áður þekkti og er kominn á flótta. Svo endar hann á Íslandi, en það er mjög ævintýralegt og sérstakt hvernig það gerist og svo er það þessi fyrirstaða hér að veita honum hæli. Ég fer í gegnum þetta og reyni að gera á málefnalegan hátt og án þess að á nokkurn sé hallað, þó ég verði að viðurkenna að stundum hafi ég efast um mannúðarsjónarmiðin hjá opinberum stofnunum hér í sambandi við þessi mál,“ segir Sigursteinn, en hann lagði mikið á sig til að hjálpa Hussein að fá hér hæli eftir að kærunefnd útlendingamála hafnaði beiðni hans um alþjóðlega vernd. „Ég þurfti að taka á öllu mínu, og ekki bara ég heldur líka mitt nánasta fólk, til að koma því máli í höfn.“

Sigursteinn segir það dýrmætasta sem við getum gefið flóttafólki sé …
Sigursteinn segir það dýrmætasta sem við getum gefið flóttafólki sé tími okkar, þó það sé ekki nema einstaka göngutúr eða spjall yfir kaffisopa. mbl.is/Arnþór

Sigursteinn segir fjölmiðla hafa staðið sig ágætlega í að veita flóttafólki rödd en hann hvetur alla sem tök hafa á að kynna sér og kynnast flóttafólki á Íslandi af eigin raun. „Það er gríðarlega mikilvægt hlutverk sem fjölmiðlar hafa að vera spegill samfélagsins, og hluti af því sem er að gerast hér er að fullt af fólki, eða reyndar ekki fullt, því miðað við önnur lönd er það mjög fátt og meira að segja líka miðað við höfðatölu, en þetta eru nokkur hundruð manns á ári og hluti þessa fólks er í alveg skelfilegri stöðu.“

„En það er eitt að lesa viðtöl og frásagnir og annað að fá tækifæri til að kynnast fólkinu persónulega. Að kynnast örlögum þessara einstaklinga sem höllustum fæti standa í veröldinni og hafa misst allt sitt, fólkið sitt, landið sitt og lágmarksöryggi og hefur orðið fyrir öllu þessu ofbeldi í leit að skjóli. Fyrir mér er þetta orðið mjög brýnt verkefni og ég hef líka kynnst sjálfum mér svo miklu betur í gegnum þetta.“

Bara eitt sem flóttamenn hafa of mikið af

Sigursteinn segir það hvað mikilvægast að rjúfa einangrun fólks, hvort sem það eru fatlaðir, öryrkjar, ellilífeyrisþegar eða aðrir. Eitt einangraðasta fólkið sé engu að síður flóttafólk, sem í ofanálag upplifi daglegan ótta um afdrif sín, svo ekki sé talað um missinn sem þau hafa upplifað.

„Það sem við getum gert sem einstaklingar hér í þessu landi er að rjúfa þessa einangrun og reyna að skapa fólki þær aðstæður að því líði örlítið betur og hafið eitthvað við að vera. Ég hef lagt mikla áherslu á það við flóttamenn að þeir læri íslensku og noti tímann vel. Það er eitt sem flóttamenn hafa of mikið af, og það er bara eitt, það er tíminn, og það skiptir ofboðslega miklu máli hvernig þeir nýta hann og þessi fáu verkfæri sem þeir hafa,“ segir Sigursteinn.

Það dýrmætasta sem við getum gefið þeim sé svo okkar tími, þó það sé ekki nema einstaka göngutúr eða spjall yfir kaffisopa. „Í gegnum þetta góða fólk sem hefur upplifað þessa vondu hluti hefur maður bara séð hvað það er ofboðslega mikið í þau spunnin mörg, og hvað þessi erfiða lífsreynsla hefur þrátt fyrir allt ekki dregið þeirra jákvæðu persónuleika niður.“

Aðeins á hljóðbók

Sigursteinn segir sögu Husseins, eins og áður segir, í hljóðbókinni Ferðalok, en hún er aðeins aðgengileg á Storytel. Sigursteinn segir ekkert ákveðið um hvort bókin verði gefin út á prenti síðar meir.

„Yfirleitt er það á hinn veginn að þær koma fyrst út á prenti en enda á hljóðbók,“ segir Sigursteinn, en að ástæðurnar fyrir þessu fyrirkomulagi nokkrar. Hljóðbókin sé að sækja á og honum hafi þótt þetta spennandi vettvangur, en aðalástæðan sé hins vegar nærgætni vegna þess hve viðkvæm saga Husseins er.

„Eftir ráðfærni við Hussein varð þetta úr vegna þess hve viðkvæm sagan er, auðvitað, og viðkvæm honum sérstaklega, þá væri þetta mildari leið heldur en ef bókin væri í öllum stórmörkuðum og bókabúðum. Honum fannst þetta þægilegri leið, allavega svona til að byrja með.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert