„Ég notaði áfengi til að deyfa mig“

Á svölunum í Los Cristianos syðst á Tenerife. Sundlaugar, tennisvellir …
Á svölunum í Los Cristianos syðst á Tenerife. Sundlaugar, tennisvellir og opið haf? Er hægt að biðja um mikið meira? Ljósmynd/Rósa Lind Björnsdóttir

„Ég er eiginlega ekki enn flutt hingað því ég er ekki almennilega búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór,“ segir Anna Kristjánsdóttir vélfræðingur sem þó verður 68 ára gömul eftir fjóra daga. Hún situr fyrir svörum á heimili sínu í Los Cristianos á Kanaríeyjunni Tenerife, huggulegri íbúð í blokk sem er nokkru stærri en hin annálaða blokk í Æsufelli í Breiðholti. Útsýnið af svölunum þar sem hún býr á fimmtu hæð er býsna tilkomumikið, sundlaugar og tennisvellir næst húsinu og fjær endalaus víðátta Atlantshafsins.

Anna flutti til Tenerife í ágúst, þessarar veðursælu eyjar þar sem hreinlega annar hver Íslendingur virðist vera staddur núna yfir hátíðirnar í góðu yfirlæti og hátt í 30 stiga hita. Eða nei nei, ekki annar hver, en nánast á hverju götuhorni heyrist þó mælt á íslenska tungu og uppselt var í hangikjötsveislu Íslendingabarsins Nostalgia við Amerísku ströndina í gærkvöldi. Þar er sem betur fer boðið upp á hangikjöt á nýjan leik í kvöld fyrir þá sem vilja halda í hefðirnar.

Hundleiddist Torrevieja

Síðan þessir búferlaflutningar áttu sér stað hefur Anna vakið athygli fyrir fersklega pistla sína á Facebook og frásagnir af lífinu á Tenerife, Paradís sem hún kallar svo.

„Ég þoli mjög illa kulda,“ segir Anna frá og segist hreinlega hafa langað á suðrænar slóðir. „Ég fór þá til Torrevieja á Spáni til að kynna mér aðstæður og þessi vika sem ég var þar var bara hundleiðinleg, rigning fleiri daga og rok. Svo kom ég hingað og þá var sól í sjö daga. Það hefur rignt tvisvar síðan ég flutti hingað,“ segir Anna og bendir niður af svölum sínum á vökvunarkerfi fyrir pálmatré bæjarins sem þiggja vatn sitt gegnum slöngur.

Hitamælirinn á veggnum sýndi háar tölur í gær, að minnsta …
Hitamælirinn á veggnum sýndi háar tölur í gær, að minnsta kosti miðað við jóladag. Ljósmynd/Rósa Lind Björnsdóttir

„Þannig að nú er ég búin að vera hérna í fjóra mánuði og búin að framlengja leigusamninginn, þannig að ég verð hérna alla vega til 1. ágúst,“ segir Anna og auðvelt er að skilja þá ákvörðun, hitastig sem flestir Íslendingar geta vel við unað og náttúran á eyjunni ekkert slor, skógi vaxnar hæðir, sandstrendur og gróðursæld.

Anna á sjö barnabörn á Íslandi og auðvitað liggja íslensku ræturnar djúpt. Hún fékk íbúðina gegnum breska leigumiðlun, greiðir 1.000 evrur á mánuði fyrir hana, tæpar 136.000 íslenskar krónur sem henni þykir í dýrari kantinum en aðrir þættir jafna það mikið til út. Hún segir lægsta Visa-reikninginn sinn fram að þessu hafa verið 114.000 krónur fyrir útgjöld eins mánaðar svo kostnaðurinn þvælist ekki mikið fyrir á Tenerife þrátt fyrir velgjörðir í mat og drykk. „Það er ekki eins og ég sé einhver nánös hérna,“ segir vélfræðingurinn og glottir við tönn.

55 ára starfsævi

Anna lætur vel af Íslendingasamfélaginu á Tenerife þótt það hafi engin ákvörðunarástæða verið fyrir flutningunum. Hún er félagslynd manneskja, opin og viðræðugóð og hefur þar af leiðandi kynnst fjölda fólks en nefnir sérstaklega Guðna Má Henningsson útvarpsmann sem var orðinn vinur hennar áður en hún flutti og er hér búsettur.

Talið berst að starfsferli Önnu sem starfaði sem vélstjóri frá 1974 og þar til í júní á þessu ári, nánast alla ævi þess sem hér skrifar. Hún fer stuttlega yfir ferilinn og telur upp nokkur skip sem hún starfaði á, meðal annars vöruflutningaskipum Eimskipafélagsins sem hún ber vel söguna.

Í góðum félagsskap Stefáns Skúlasonar og Boga Þorsteinssonar á sjóbjörgunaræfingu …
Í góðum félagsskap Stefáns Skúlasonar og Boga Þorsteinssonar á sjóbjörgunaræfingu á Íslandi 2016. Ljósmynd/Hilmar Snorrason

„Starfsævin mín með öllu spannar 55 ár,“ segir Anna sem ung hóf sína þátttöku á vinnumarkaði. Eða ungur kannski öllu heldur því vélfræðingurinn var karlmaður fram til 1995, Kristján Kristjánsson. Kristján sá gekkst svo undir kynleiðréttingaraðgerð í Svíþjóð árið 1995 og hefur verið kona síðan. Og Anna lítur reyndar vel út fyrir að vera tæplega sjötug dama og ber það hlutverk með myndarbrag.

Ekki er annað hægt en að spyrja út í hvernig það hafi verið fyrir Íslending að gangast undir kynleiðréttingaraðgerð í Svíþjóð á síðustu öld en þá voru slíkar aðgerðir ekki einu sinni í boði á Íslandi. Og fordómarnir ekki litlir. Þetta mun hafa krafist hugrekkis og einbeitts vilja eða hvað?

„Þetta hefur alveg gjörbreyst. Fyrstu árin eftir að ég kom til Íslands [frá Svíþjóð] þá er ég nákvæmlega eins og lýst var í sjónvarpsþáttunum frægu, Little Britain, þegar drengurinn sagði „I’m the only gay in the village,“ segir Anna glettnislega og hlær við.

Fór í gegnum kynleiðréttingarferlið í Svíþjóð

„Ég var bara ein í þessu. Auðvitað var fullt af fólki í kringum mig en enginn kom fram opinberlega,“ segir Anna og rifjar upp tilveru transfólks á Íslandi á tíunda áratug aldarinnar sem leið. „Ég fór í gegnum ferlið í Svíþjóð, en ég sótti um þetta á Íslandi og fékk dyggan stuðning, þar á meðal frá góðum sálfræðingi, Sölvínu heitinni Konráðs sem reyndi sitt besta til að aðstoða mig en það bara dugði ekki til á þeim tíma, íslenskt heilbrigðiskerfi var bara ekki tilbúið til að sinna mér á nokkurn hátt,“ segir Anna og dimmir um stund yfir svip þessarar annars brosmildu og glaðværu konu.

Djúpir eru Íslands álar. Á æfingu í vor.
Djúpir eru Íslands álar. Á æfingu í vor. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var bara hvött til að fara út og ég fór til Svíþjóðar. Spurningin var hvort ég ætti að fara þangað eða til Hollands jafnvel,“ rifjar hún upp. Og þannig vildi það til að Kristján Kristjánsson varð Anna Kristjánsdóttir. Hvernig gekk þetta þá í starfsgrein sem karlmenn hafa átt nokkurn veginn út af fyrir sig? „Það gekk mjög misjafnlega,“ svarar Anna. „Fyrstu árin voru mjög erfið á Íslandi, ég verð bara að segja eins og er,“ segir hún.

„Það var ekki fyrr en mikið fleiri voru búnir að fara í gegnum þetta ferli sem fordómarnir fóru að minnka að ráði. Þá kom í ljós að ég var ekki ein og fljótlega kom í ljós að þetta voru tugir ef ekki hundrað manns,“ segir hún enn fremur. Björninn er þó ekki unninn. „Í dag er ég að lesa viðtöl við fólk úti í Svíþjóð sem er að fá nákvæmlega sömu heimskuspurningarnar og ég fékk fyrir 25 árum,“ segir Anna og telur margt óunnið í réttindabaráttu transfólks.

Var í sífelldri vörn

„Þetta er samt allt orðið miklu jákvæðara og skemmtilegra núna í dag og fordómarnir eru á undanhaldi,“ segir Anna glöð í bragði. „Viðhorfið er allt annað.“ Hún játar þó að vegurinn hafi verið þyrnum stráður og á tímabili hafi Bakkus veitt býsna góðan félagsskap.

„Ég notaði áfengi til að deyfa mig,“ játar Anna Kristjánsdóttir. „Ég var í sífelldri vörn og var að drekka mig frá sársaukanum. Þetta var löngu áður en ég fór í aðgerðina. Á tímabili var þetta orðið dálítið mikið og ég viðurkenni það alveg að ég þarf að passa mig,“ segir hún en kveðst þó aldrei hafa leitað til meðferðarstofnana né sótt einn einasta AA-fund. „Ef fólk er með fíknisjúkdóm er það allt byggt á sama elementi í líkamanum, áfengi, dóp, spilafíkn og bara. En ég hef aldrei prófað dóp, um leið og ég byrja á fyrsta hasskögglinum er ég fallin, ég bara veit það,“ segir Anna ákveðin.

„Þegar ég hætti að reykja ákvað ég að fá mér sígarettu eftir eitt ár,“ segir hún sem dæmi um fíknina og mannshugann, „en síðan eru nú liðin tuttugu ár og ég er ekki búin að fá mér hana enn þá. Ég treysti mér ekki til að taka fyrstu sígarettuna aftur,“ segir Anna og hlær. „Það er mjög auðvelt að falla í gryfjuna,“ segir vélstjórinn og lítur dreymnum augum út á Atlantshafið þar sem ferjan frá La Gomera, næstminnstu Kanaríeyjunni, sígur inn til hafnar. Með því lýkur spjallinu á svölum Önnu Kristjánsdóttur á Tenerife, dvalarstað býsna margra Íslendinga nú um jól og áramót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert