Droplaugastaðir lausir við legionellu

Hjúkrunarheimilið Droplaugarstaðir stendur við Snorrabraut í Reykjavík.
Hjúkrunarheimilið Droplaugarstaðir stendur við Snorrabraut í Reykjavík. mbl.is/Golli

Vatnslagnakerfi hjúkrunarheimilisins Droplaugarstaða í Reykjavík hefur verið endurnýjað. Sýni sem tekin voru úr nýju lögnunum fyrr í vikunni sýna að heimilið er nú að öllu leyti laust við legionellu-bakteríuna sem plagaði heimilismenn síðsumars.

Greint var frá því í september að einn íbúi hjúkrunarheimilsins hef­ði greinst með her­mannaveiki, sem orsakast af umræddri legionella-bakteríu. Bakt­erí­an lif­ir í vatni og get­ur vaxið í vatns­lagna­kerfi. Tvö önnur tilvik voru send til athugunar, en þeir íbúar reyndust ekki hafa veikst.

Að sögn Jórunnar Óskar Frímannsdóttur forstöðumanns reyndist verkið töluvert umfangsmeira en gert var ráð fyrir í upphafi. „Við fórum tvisvar í það að hreinsa og hita upp allt kerfið til að losna við bakteríuna,“ segir Jórunn. Í fyrra skiptið hafi útkoman ekki verið nógu góð, en eftir seinni hreinsunina sást verulegur munur og segir Jórunn að niðurstöður þar hafi raunar reynst innan þeirra viðmiðunarmarka sem notuð eru víða erlendis.

Engu að síður hafi verið tekin ákvörðun í samstarfi við Reykjavíkurborg um endurnýjun og lagfæringu á öllu kerfinu. Sett var upp svokallað hringrásarkerfi og ný blöndunartæki hjá öllum íbúum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert