Rússneskir og kínverskir ferðamenn í bílunum

Umferðarslys varð skammt norðan við Geysi, við afleggjara að bænum …
Umferðarslys varð skammt norðan við Geysi, við afleggjara að bænum Brú. Ljósmynd/Margeir Ingólfsson

Kínverskir og rússneskir ferðamenn voru í rútunni og jeppanum sem skullu saman skammt norðan við Geysi um klukkan fjögur í dag. Þrir voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar og hinir 10 fóru á bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi. Mildi að þetta fór ekki verr. Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi.

Þrír farþegar, einn kínverskur og tveir rússneskir, voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur, en þeir eru að sögn ekki taldir alvarlega slasaðir. Þyrlan lenti við Borgarspítalann í Fossvogi klukkan 17:50. Upphaflega stóð til að senda fjórða farþegann einnig til aðhlynningar í borginni, en ekki reyndist þörf á því.

Alls voru þrettán í bílunum tveimur, og voru þeir, sem ekki voru fluttir til Reykjavíkur, færðir til aðhlynningar á bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi.

Mikil hálka er á svæðinu og hvetur lögreglan vegfarendur að fara varlega sem og að taka tillit til starfa lögreglunnar sem rannsakar svæðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert