„Hættan er hinum megin við hæðina“

Í hvert einasta skipti sem Páll heyrir af því að …
Í hvert einasta skipti sem Páll heyrir af því að heitu veðri sé spáð sýpur hann hveljur. Ljósmynd/Aðsend

„Reykurinn veldur því að það er eins og við og krakkarnir séum að reykja pakka á dag,“ segir Páll Þórðarson, Vopnfirðingur sem hefur búið ásamt fjölskyldu sinni í Ástralíu síðastliðin tuttugu ár. Í Ástralíu hafa nú geisað skógareldar í rúma tvo mánuði. Á annan tug eru látnir og fjöldi fólks hefur misst heimili sín. 

„Þetta er búið að vera mjög leiðinlegt sumar fyrir alla, ekki bara fyrir þá sem hafa lent í mann- og eignatjóni. Þetta er farið að komast á sálina hjá fólki. Hérna í Sydney þar sem ég vinn erum við búin að vera í reykjarmekki síðustu sex vikur. Ég bý í smábæ utan við Sydney og þar voru eldar í vikunni fyrir jól og þá eyðilögðust 20-30 hús í 60 kílómetra fjarlægð frá mér,“ segir Páll sem líkir skógareldunum við snjóflóð á Íslandi.

„Krakkarnir fóru einmitt í fyrsta sinn til Íslands um jól …
„Krakkarnir fóru einmitt í fyrsta sinn til Íslands um jól síðustu jól og það er ekki laust við að þau sakni þess núna,“ segir Páll sem er hér ásamt fjölskyldunni sinni. Ljósmynd/Aðsend

Páll er prófessor í efnafræði í háskóla í Sydney. Skógareldar eru algengir í Ástralíu og einhver hluti þeirra einungis eðlilegur hluti af vistkerfinu. Páll segir nær öruggt að þessir eldar séu það ekki heldur séu þeir afleiðing loftslagsbreytinga. Hann er ósáttur við þá sem afneita þeim mikla vanda sem mannkynið stendur frammi fyrir í þeim efnum. 

„Sumt fólk vill ekki heyra sannleikann, ekki fyrr en það fer að brenna ofan af því kannski,“ segir Páll. 

Ekki hægt að hnika trú afneitunarsinna

„Málið með loftslagsbreytingarnar er að það er svolítið erfitt að útskýra þær þannig að fólk skilji þær. Ég er mjög ánægður með það að á Íslandi er mikill meirihluti fólks búinn að átta sig á vandamálinu. Þú verður eiginlega að skilja efnafræði og annað slíkt til þess að skilja í raun og veru hvað er í gangi í lofthjúpnum. Um leið og mannfólkið fer að trúa einhverju þá mun ekkert hnika þeirri trú. Ekkert frekar en þeir á Íslandi sem geta ekki viðurkennt að það sé spilling innan stjórnkerfisins.“

„Logandi glóð úr trjánum getur fokið nokkra kílómetra og kveikt …
„Logandi glóð úr trjánum getur fokið nokkra kílómetra og kveikt bæði í skógum og húsum. Þetta eru náttúruhamfarir eins og snjóflóðin heima,“ segir Páll. Ljósmynd/Aðsend

Páll segir að of lítið sé um raunverulegar aðgerðir gegn loftslagsvandanum. „Fólk gerir hluti sem skipta ekki máli eins og að nota ekki plaströr. Það er ekkert gert í því sem skiptir máli eins og að skipta um orkugjafa og hægja á notkun kolefnaeldsneytis með sköttum.“

Sex forsætisráðherraskipti vegna loftslagsmála

Páll segir að stjórnmálamenn í Ástralíu deili mikið um loftslagsbreytingar og aðgerðir gegn þeim. Það sé sorglegt vegna þess að Ástralía sé ríkt land sem gæti látið til sín taka í þeim efnum. 

„Það eru meira en 30 ár síðan við áttuðum okkur á því að tíðni og ofsi skógarelda myndi aukast. Helsta vandamálið hér er að kolanám er ein af undirstöðuatvinnugreinunum og hefur kolaiðnaðurinn gríðarleg ítök í stjórnmálum hér. Í  raun og veru hafa stjórnmál í Ástralíu síðustu tíu árin sér í lagi eingöngu snúist um deilur um loftslagsmál og orkumál. Við erum búin að skipta sex sinnum um forsætisráðherra, aðallega út af þessu.“

Páll segir nær öruggt að þessir eldar séu afleiðing loftslagsbreytinga.
Páll segir nær öruggt að þessir eldar séu afleiðing loftslagsbreytinga. Ljósmynd/Aðsend

Krakkarnir sakna Íslands

Hann og fjölskylda hans eru ekki í hættu. „Hættan er hinum megin við hæðina. Við ætluðum sjálf að fara í sumarfrí á suðurströndina en við þurftum að aflýsa því. Þeir eru að segja ferðamönnum að koma ekki þar sem þeir hafa hreinlega ekki vistir og rétt komu rafmagni aftur á og þess háttar. Þar er 35 stiga hita spáð en í hvert einasta skipti sem maður heyrir það þá sýpur maður bara hveljur og vonar að það verði ekki tjón einhvers staðar.“

Mikil reiði var í Áströlum um áramótin, að sögn Páls, en þá voru skógareldarnir á sérstaklega slæmu stigi. Þrátt fyrir það var haldin flugeldasýning með pomp og prakt og tilheyrandi mengun í Sydney. 

Spurður hvort hann sakni ekki Íslands á tímum sem þessum segir Páll: „Ég er náttúrlega búinn að búa hérna í 20 ár og er ríkisborgari hér. Krakkarnir fóru einmitt í fyrsta sinn til Íslands um síðustu jól og það er ekki laust við að þau sakni þess núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert