Leitaði kvonfangs hjá Kvennalista

Gleb Terekhin á íslenskri grundu árið 2005.
Gleb Terekhin á íslenskri grundu árið 2005. Árni Torfason

„Kær frúar og herrar mínir! Með kær kveðja frá Moskva mín góðir hálsar!“

Með þessum orðum hófst bréf sem 35 ára rússneskur strætóbílstjóri, Gleb Terekhin, ritaði Samtökum um kvennalista árið 1995. Óskaði hann þar eftir aðstoð við að finna sér eiginkonu og vinnu á Íslandi. Lái honum hver sem vill, hvar á Íslandi er betra að fá lista yfir konur en hjá Samtökum um kvennalista?!

Fyrsta bréfið frá Gleb Terekhin barst hingað til lands árið 1994 í gegnum faxtæki á Umferðarmiðstöðinni og var það meðal annars birt í Morgunblaðinu. Þar bað hann um hjálp við að „kynnast með kvenmaður frá Ísafold, með tilgangur bréfaviðskipti“. Hann biður viðtakanda að afsaka málfræðilegar villur sínar og tekur fram að í Rússlandi sé ekki til nein rússnesk-íslensk orðabók. Þess í stað hafi hann eytt ómældum tíma á bókasafni heima í Rússlandi yfir hálfrar aldar gamalli dansk-íslenskri orðabók og annarri ensk-íslenskri. Hann segist vonast eftir svari og kveður með mikilli virðingu „yður starfsamur íslenzkur þjóð“.

Sá hefur fengið plús í kladdann hjá ritstjórum Morgunblaðsins fyrir Z-una.

Bréfið góða sem Gleb ritaði Samtökum um kvennalista.
Bréfið góða sem Gleb ritaði Samtökum um kvennalista. Golli / Kjartan Þorbjörnsson


Á tíu ára tímabili skrifaði Gleb fjölmörg bréf um hugðarefni sín, vinnu- og eiginkonuleit, sem birt voru m.a. í Morgunblaðinu, Tímanum, DV, tímaritinu Heima er bezt, sem var í mestum samskiptum við Gleb, og héraðsblaðinu Austurland.

Síðar rakst Kristján Guðmundsson listamaður á bréfin og fann í þeim samsvörun við lífsviðhorf sín og félaga sinna í félagi Hreiðars heimska og ákvað að bjóða Gleb til Íslands árið 2005.

Gleb var í hálfan mánuð á Íslandi og öll heimsóknin var tekin upp ásamt nokkrum dögum í Moskvu. „Ég kom inn í þetta verkefni að frumkvæði Finns Arnars Arnarsonar og Ásu Thorlacius,“ segir Ingvar Á. Þórisson, en heimildarmynd hans um Gleb, Einfaldur maður, verður sýnd í Bíó Paradís frá og með miðvikudeginum 8. janúar. Hún var frumsýnd á Skjaldborgarhátíðinni í fyrra.

Ingvar var mættur á flugvöllinn að taka á móti Gleb og ferðaðist með honum um landið næstu tvær vikurnar. „Gleb kunni vel við sig á Íslandi og bauðst að koma aftur sem hann gerði ekki, alla vega ekki enn þá,“ segir Ingvar sem lýsir Gleb sem sérstökum manni sem hafi með óvenjulegum hætti tekist að búa til setningar á íslensku sem gengu upp – svo vel raunar að úr varð óformleg bókmenntagrein.

„Auðvitað var þetta öðrum þræði gjörningur hjá listamönnunum en þeir gerðu vel við Gleb sem skemmti sér vel hérna. Ég veit hins vegar ekki til þess að hann hafi fengið neitt svar frá íslenskum konum,“ segir Ingvar sposkur.

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert