„Við munum sannarlega fylgja þessu máli eftir“

Fundað var um ástandið á bráðamóttöku Landspítalans í dag.
Fundað var um ástandið á bráðamóttöku Landspítalans í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það sem ég tek með mér af þessum fundi er að stjórnendur Landspítalans eru á fullu við að vinna að því að leysa úr þeim vanda sem verið hefur í umræðunni að undanförnu í sambandi við bráðamóttökuna. Þau eru meðal annars að vinna í því að opna fleiri bráðadeildarrúm og reyna að hreyfa sig innan þess ramma sem skipuritið leyfir.“

Þetta segir Ólafur Þór Gunnarsson, varaformaður velferðarnefndar Alþingis. Fundað var um ástandið á bráðamóttöku Landspítalans í dag og voru gestir fundarins m.a. stjórnendur Landspítala, formaður félags almennra lækna, formaður sjúkrahúslækna, forstöðumaður bráðamóttökunnar og yfirlæknir.

Ólafur Þór Gunnarsson.
Ólafur Þór Gunnarsson.

Ólafur Þór segir vilja og áhuga lækna á að aðstoða stjórnendur spítalans við að gera betur hafa komið skýrt fram á fundinum. 

„Eins og Jón Magnús Kristjánsson [yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum] hefur rætt á opinberum vettvangi eru þrjú meginatriði sem standa út af og ég er honum algjörlega sammála í því. Það þarf að bæta heimahjúkrun og -þjónustu til að draga úr aðflæði á spítalann, það þarf að hraða uppbyggingu hjúkrunarrýma, sem er raunar verið að gera en það þarf að halda því áfram, og í þriðja lagi þarf að semja við þær heilbrigðisstéttir sem samningar standa út af hjá,“ segir Ólafur Þór.

Spurður um framhaldið segir Ólafur Þór að nefndin sé nú í nokkurs konar fundalotu til að fara yfir stöðuna. Landlæknir muni t.a.m. koma á fund nefndarinnar síðar í vikunni.

„Nefndin hafði frumkvæði að því í fyrra að ræða við landlækni og í kjölfarið kom skýrsla um stöðuna á bráðamóttökunni og nú munum við heyra aftur í landlækni um það hvernig eftirfylgni hafi verið. Við munum svo sannarlega fylgja þessu máli eftir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert