Átakshópur skipaður vegna bráðamóttöku LSH

Í minnisblaði landlæknis segir að þrátt fyrir fjölda aðgerða sem …
Í minnisblaði landlæknis segir að þrátt fyrir fjölda aðgerða sem gripið hafi verið til af hálfu heilbrigðisráðuneytisins og Landspítalans hafi staðan á bráðamóttökunni ekki batnað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Átakshópur verður skipaður til að finna lausnir á brýnum vanda bráðamóttökunnar og hrinda þeim í framkvæmd. Þetta er sameiginleg niðurstaða fundar heilbrigðisráðherra, landlæknis og forstjóra Landspítalans sem haldinn var í heilbrigðisráðuneytinu í dag en greint er frá niðurstöðunni á vef ráðuneytisins.

Á fundinum var fjallað um aðstæður á bráðamóttöku Landspítalans, vandamálin sem þar er helst við að etja og aðgerðir til að leysa vandann til skemmri og lengri tíma.

Landlæknir afhenti heilbrigðisráðherra í gær minnisblað varðandi stöðuna á bráðamóttöku Landspítala og var efni þess kynnt fyrir forstjóra sjúkrahússins og þeim stjórnendum sjúkrahússins sem sátu fundinn í dag auk hans.

Í minnisblaði landlæknis segir að þrátt fyrir fjölda aðgerða sem gripið hafi verið til af hálfu heilbrigðisráðuneytisins og Landspítalans hafi staðan á bráðamóttökunni ekki batnað. Allt of margir sjúklingar bíði þar eftir innlögn á deildir spítalans. Telur embættið meginvandann vera skort á hjúkrunarrýmum og vöntun á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum á legudeildum spítalans.

Fram kemur að alls séu 40 rúm lokuð á bráðalegudeildum spítalans vegna skorts á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum en þau voru 35 fyrir ári.

Embætti landlæknis beinir fimm tillögum til heilbrigðisráðherra varðandi bráðamóttöku Landspítalans:

Gripið verði til samráðs og aðgerða án tafar þannig að sjúklingar þurfi ekki að vistast á göngum bráðamóttökunnar.

Vinnu stjórnvalda er lýtur að mönnun verði hraðað sem mest og minnt er á hve mikilvægt er að ganga frá kjarasamningum við hjúkrunarfræðinga og aðrar heilbrigðisstéttir.

Fram fari greining á hvaða áhrif opnun hjúkrunarrýma í ár, sem og annarra úrræða er varðar þjónustu við aldraða, hafi inn í þennan vanda og mat á hvort bæta þurfi um betur, t.d. með því að fela til þess bærum aðilum að reka fleiri hjúkrunarrými til bráðabirgða.

Skoðað verði hvernig húsnæði bráðamóttöku muni duga til lengri tíma eða þar til nýr spítali rís. Skoðað verði m.a. hvort bæta þurfi við húsnæði deildarinnar eða hvort enduropna ætti bráðamóttöku eða Hjartagátt við Hringbraut.

Fram fari vönduð greining á fjárþörf og rekstri Landspítala en ljóst sé að skiptar skoðanir eru á milli forstjóra og yfirvalda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert