Guðni fer á landsleik á leiðinni til Ísraels

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heldur í opinbera heimsókn til Ísraels dagana 22. og 23. janúar í boði Reuven Rivlin, forseta Ísraels. Þar mun hann ásamt 50 þjóðarleiðtogum, forystumönnum ríkisstjórna og þjóðþinga, sækja dagskrá í Jerúsalem til að minnast helfararinnar gegn gyðingum í síðari heimsstyrjöldinni.

Er minningardagskráin skipulögð af World Holocaust Forum Foundation í samstarfi við Yad Vashem-stofnunina. Meðal ræðumanna verða Reuven Rivlin forseti Ísraels, Vladímír Pútín forseti Rússlands, Emmanuel Macron forseti Frakklands, Frank-Walter Steinmeier forseti Þýskalands, Michael R. Pence varaforseti Bandaríkjanna og Karl Bretaprins.

Kvöldið áður mun Guðni ásamt öðrum forystumönnum sitja hátíðarkvöldverð forseta Ísraels. Þá mun forseti Íslands eiga fundi með landsstjóra Kanada og forseta Finnlands meðan á dvöl hans í Jerúsalem stendur.

Í tilkynningu frá embættinu kemur fram að Guðni muni á leið sinni til Ísraels sækja landsleik Íslands og Portúgals í handknattleik karla, í boði HSÍ, sem fram fer í Malmö sunnudaginn 19. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka