Lærði fyrir 25 árum að morgundagurinn er ekki vís

Halldór Óli Hjálmarsson, fulltrúi björgunarsveitanna í aðgerðastjórn á Ísafirði, segist að vonast sé til þess að þeim verkefnum sem hafa verið í umsjá aðgerðastjórnarinnar undanfarna tvo daga eftir snjóflóðin þrjú á Flateyri og í Súgandafirði á þriðjudag, ljúki á morgun.

Aðallega á eftir að ljúka við hreinsun hússins við Ólafstún sem varð fyrir flóðinu úr Innra-Bæjargili á þriðjudagskvöld. Síðan tekur hreinsun hafnarinnar á Flateyri við, en það verkefni verður ekki í umsjá aðgerðastjórnarinnar.

Sextándi janúar 1995 gleymist aldrei

Halldór Óli segir að það hafi tekið mikið á fyrir þá sem muna eftir hörmungunum á Súðavík og Flateyri árið 1995 og tóku jafnvel þátt í björgunarstörfunum þá að takast á við verkefni vikunnar. Fyrir hann persónulega hefur það augljóslega tekið mjög á.

„Þetta náttúrulega bara ýfir upp gömul sár,“ segir Halldór Óli. „Ég fór í fyrstu ferð með Fagranesinu inn í Súðavík og kom með síðustu ferð með Fagranesinu til baka,“ bætir hann við, en Fagranesið var bílaferja sem sigldi um Ísafjarðardjúpið fyrir aldamót og var nýtt til þess að koma fyrstu viðbragðsaðilum frá Ísafirði til Súðavíkur á þessum voðalega degi fyrir sléttum aldarfjórðungi.

Forsíða Morgunblaðsins 18. janúar 1995.

Halldór Óli og aðrir í björgunarliðinu unnu þrekvirki við ólýsanlegar aðstæður á Súðavík og fengu bjargað tólf manns úr húsarústum, þeirra á meðal Tomaszi Þór Verusyni, sem ræddi við mbl.is fyrr í kvöld. Hann fannst eftir nærri sólarhring.

„Þetta tekur á. Þetta er eitthvað sem maður gleymir aldrei. Fyrir 25 árum síðan gerði maður sér alveg grein fyrir því að morgundagurinn er ekki vís,“ segir Halldór Óli og bætir við að verið væri að horfa á allt aðra stöðu ef ekki væri fyrir varnargarðana fyrir ofan Flateyri.

„Það er alveg klárt að við værum að horfa á allt aðra stöðu ef varnargarðurinn hefði ekki verið þarna. Þá værum við bara að horfa á svipað dæmi og fyrir 25 árum síðan.“

Þyrla Landhelgisgæslunnar á Flateyri í gær.
Þyrla Landhelgisgæslunnar á Flateyri í gær. Ljósmynd/Óttar Guðjónsson

Flateyrarvegur orðinn fær en þó lokaður í nótt

Halldór Óli ræddi við mbl.is eftir að aðgerðastjórnin, sem er til húsa í slökkviliðsstöðinni á Ísafirði, lauk störfum um kl. 20 í kvöld. Þangað mæta menn aftur snemma í fyrramálið.

Flateyrarvegur var opnaður fyrir umferð undir eftirliti um kvöldverðarleytið í kvöld, en hann verður lokaður í nótt af öryggisástæðum, samkvæmt vef Vegagerðarinnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert