Ari Trausti ætlar ekki að segja af sér

Ari telur það ekki til fyrirmyndar að þingnefnd sé falið …
Ari telur það ekki til fyrirmyndar að þingnefnd sé falið að ráða í opinberar stöður. Þingvallanefnd er eina fastanefnd Alþingis sem annast slíkt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ari Trausti Guðmunds­son, formaður Þing­valla­nefnd­ar, segir mál Ólínu Þorvarðardóttur ekki gefa ástæðu til þess að hann segi af sér formennsku í nefndinni. Hann segir að nefndin hafi nú þegar gert sitt til að viðurkenna mistök sem gerð hafi verið í ráðningarferlinu og því standi ekki til að biðja Ólínu afsökunar.

Ólína náði nýverið sam­komu­lagi við ís­lenska ríkið um 20 millj­óna króna bóta­greiðslu vegna brota Þingvallanefndar. Kær­u­nefnd jafn­rétt­is­mála hafði áður kom­ist að þeirri niður­stöðu að Þing­valla­nefnd hefði brotið gegn jafn­rétt­is­lög­um við skip­an þjóðgarðsvarðar árið 2018, er nefnd­in valdi Ein­ar Sæ­mundsen fram yfir Ólínu í starfið.

Ari segir ábyrgðina fyrst og fremst liggja hjá meirihlutanum í Þingvallanefnd og ráðgjafa frá Capacent sem nefndin réð til sín vegna ráðningarferlisins. Einnig hafi minnihlutinn viðurkennt ábyrgð á að hafa ekki uppgötvað mistök við skráningu huglægs mats á umsækjendum.

Vinstri græn og nefndin vilja ekki afsögn

Enn fremur telur Ari það ekki til fyrirmyndar að þingnefnd sé falið að ráða í opinberar stöður. Þingvallanefnd er eina fastanefnd Alþingis sem annast slíkt.

„Það er alltaf spurning hvort þetta sé tilefni til afsagnar þegar um er að ræða að einhverju leyti á ábyrgð þeirra sérfræðinga sem þú ræður til verksins,“ segir Ari.

Hann hefur borið málið undir þingflokk sinn, lögmenn og nefndina. Enginn þar hefur krafist þess að Ari segi sig frá formennsku. „Það voru allir sammála því að þetta væri ekki þess eðlis að þess væri ekki þörf.“

Ólína Þorvarðardóttir fékk 20 milljónir í bætur.
Ólína Þorvarðardóttir fékk 20 milljónir í bætur. mbl.is/Hari

Staða Þingvallanefndar einstök

Ari segir stöðu Þingvallanefndar sérkennilega, þá stöðu að hún þurfi að ráða opinberan starfsmann.

„Það er engin önnur þingnefnd í þessari stöðu en lög kveða á um að Þingvallanefnd reki þjóðgarðinn á Þingvöllum í samvinnu við þjóðgarðsvörð og hans fólk. Þar með erum við í þeirri stöðu að fylgja eðlilegum ferlum við ráðningu opinbers starfsmanns, stjórnsýslulögum og fleiru. Við lítum svo á að þeir ráðgjafar sem við ráðum til okkar eigi í raun og veru að vera með ráð og umsjón þannig að hlutirnir séu í lagi.“

Spurður hvort til standi að biðja Ólínu afsökunar segir Ari:

„Við í meirihlutanum hörmum vinnubrögðin sem leiða til þessarar niðurstöðu kærunefndarinnar og unum henni. Að mínu mati er það nægjanlegur umbúnaður um það hvað okkur finnst sameiginlega um þessa gjörð.“

Hann segir enn fremur að því fari fjarri að ráðningin hafi verið pólitísk. „Þetta hefur ekkert með pólitík að gera.“

Hafa mörg hver enga reynslu af ráðningum

Ólína hefur áður kallað eftir því að Ari segi af sér formennsku. Um það segir Ari:

„Ég kem að ráðningarferlinu eins og hver annar, en formaður hefur ekkert meira að segja um þar en hver annar. Ég tók ábyrgð á því að leggja það til við nefndina að Capacent yrði ráðið í að aðstoða okkur við valið. Við höfum mörg hver ekki reynslu af því að ráða í opinbera stöðu og treystum ráðgjafa.“

Ráðgjöf Capacent var ekki með fullnægjandi hætti, að mati Ara og meirihlutans, eins og áður hefur komið fram.

„Auðvitað ber ég ábyrgð á því að hafa ekki gert mér grein fyrir því og auðvitað ber ég ábyrgð á endanlegri niðurstöðu. Við í meirihlutanum deilum henni með þeim ráðgjöfum sem eru ráðnir til þess að aðstoða okkur við að fara rétt að ráðningaferlinu.“

Tekið skal fram að mat Capacent er að ráðgjöfin hafi verið haldgóð og fagleg. Það hafi verið í verka­hring Þing­valla­nefnd­ar að taka ákv­arðanir á öll­um stig­um í ráðning­ar­ferli þjóðgarðsvarðar.

Upphæðin á ábyrgð ríkislögmanns

Sérstaklega segir Ari að vantað hafi upp á að gögn um huglæga þætti í ráðningarferlinu væru rekjanleg.

„Þegar kom að því að búa um ferlið á þann máta að það væri allt saman rekjanlegt, hvernig við ræddum málin um mannlega þáttinn og sýn umsækjenda á þjóðgarðinn, hvaða niðurstöðu við komumst að, hvernig þetta skiptist í meiri- og minnihluta og svo framvegis, þá var það ekki gert með réttum hætti.“

Spurður hvort ábyrgðin á milljónunum tuttugu sem runnu úr ríkissjóði og til Ólínu liggi hjá Þingvallanefnd segir Ari:

„Ábyrgðin á ráðningunni er á höndum okkar í meirihlutanum, mínum höndum þar með, og ráðgjafanna sem við réðum, en ábyrgðin á samningnum og upphæð til Ólínu er niðurstaða samninga hennar og ríkislögmanns enda nefndin sammála um að vísa málinu til embættisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert