„Okkar kynslóð veit ekki neitt“

Örnefnaskráningarnar eru hér merktar inn með litlum rauðum dílum og …
Örnefnaskráningarnar eru hér merktar inn með litlum rauðum dílum og sést að þéttleikinn er mikill þar sem hópar fólks hafa liðsinnt við verkið, eins og til dæmis í Borgarfirði og Þingeyjarsveit. Kort/Landmælingar Íslands

Bjarney Guðbjörnsdóttir, starfsmaður hjá Landmælingum Íslands, leitar þessa dagana að örnefnavitringum, fólki sem þekkir hverja þúfu og hríslu á afmörkuðum landsvæðum hérlendis. Öllum þeim sem telja sig vel kunnuga staðháttum og eru til í að aðstoða við að skrá þau menningarverðmæti sem örnefni eru inn á landakort.

Bjarney starfar meðal annars við að hafa utanumhald með örnefnagrunni Landmælinga, en í því starfi felst að staðsetja íslensk örnefni í gagnagrunninn svo hægt sé að koma þeim inn á landakort með nákvæmum hætti. Nú er leitað að fleira fólki til þess að taka þátt í þessu starfi.

„Það er aðallega verið að setja aukinn kraft í þetta því að þeir sem þekkja örnefni eru bara að fara frá okkur. Svo þetta er eiginlega bara kapphlaup við tímann. Okkar kynslóð veit ekki neitt,“ segir Bjarney, sem sjálf er 45 ára gömul og á þar við að yngra fólk nýti sér ekki örnefni eins og áður var gert.

„Við segjum bara að það þurfi að fara lengra suður eftir eða eitthvað,“ segir hún og hlær, en þetta er ef til vill skiljanlegt, þar sem GPS og önnur tækni nútímans hefur dregið úr þörfinni á því að þekkja heiti á einstaka stöðum í hinu náttúrulega umhverfi.

Um 130.000 örnefni af 500.000 komin á kort

Þó er nauðsynlegt að halda örnefnunum til haga, en fyrir nokkrum áratugum fóru skráningarmenn um landið og og söfnuðu örnefnalýsingum af nærri öllum jörðum á Íslandi. „Í þessum örnefnalýsingum er talið að séu um 500.000 örnefni og ég held að við getum öll verið sammála um að þetta sé fjársjóðskista sem við viljum að allir hafi aðgang að,“ ritar Bjarney í örnefnahópi á Facebook, þar sem hún óskaði eftir aðstoð við verkefnið.

Um 130.000 þessara örnefna eru þegar komin í gagnagrunn Landmælinga, sem unninn hefur verið í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Á grænu svæðunum á þessu korti er búið að ljúka …
Á grænu svæðunum á þessu korti er búið að ljúka örnefnaskráningu, hún er hafin á gullituðu svæðunum en á þeim hvítu hefur hún ekki enn hafist. Kort/Landmælingar Íslands

„Vinnan gengur alveg vel og það eru nokkur stór verkefni úti á landi. Félag eldri borgara í Borgarfjarðardölum, þau bara næstum því kláruðu Borgarfjörðinn og það voru yfir þrettán þúsund örnefni sem þau skráðu á nokkrum árum, á Húsavík eru komin yfir tíu þúsund örnefni inn, Fljótsdalshérað hefur komið inn með mikinn kraft líka og svo eru fleiri að vakna,“ segir Bjarney.

„Meiri háttar“ hvað fólk er tilbúið að hjálpa

„Við ætlum að tala meira við sveitarfélögin, félög eldri borgara og átthagafélögin, því við vitum öll að þetta er svolítið hjartans mál hjá bændum að örnefni séu rétt skráð og á réttum stað. Við ætlum að reyna að bjarga þessu inn á kort, þessi örnefni eru öll til á pappír en við sem vinnum við þetta getum auðvitað ekki sett bara eitthvað einhvers staðar,“ segir Bjarney, sem hefur fengið góðar viðtökur við átakinu.

Hún segir „meiri háttar“ hvað fólk sé tilbúið að gefa tíma sinn í að hjálpa til við þetta verkefni, en frá því hún setti inn ákall um aðstoð á örnefnahópinn á Facebook hefur hún fengið fjölda pósta frá fólki sem vill hjálpa til. Áhugasamir geta haft samband við Bjarneyju á netfangið bjarney@lmi.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert