Sex teymi valin til að keppa um Fossvogsbrú

Sex teymi hafa verið valin til þess að taka þátt …
Sex teymi hafa verið valin til þess að taka þátt í samkeppni um hönnun brúar yfir Fossvog, á milli Vatnsmýrar og Kársness.

Matsnefnd á vegum Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar og Vegagerðarinnar hefur valið sex hönnunarteymi til að taka þátt í samkeppni um hönnun brúar yfir Fossvog. Búist er við því að niðurstaða samkeppninnar liggi fyrir um miðjan maí.

Fram kemur í fréttatilkynningu að teymin sem valin voru séu fjölbreytt að samsetningu. Eitt teymið er al-íslenskt, annað er danskt og það þriðja er belgískt og hollenskt. Síðan eru þrjú teymi með ólíkri samsetningu íslenskra og erlendra samstarfsaðila.

Teymin sem valin voru til þátttöku í samkeppninni eru:

Strendingur ehf. með ARUP verkfræðistofu, Knight Architects og Landhönnun

Efla hf. með Studio Granda

VSÓ ráðgjöf með Buro Happold, Explorations Architects og Trípóli.

Wilkinson Eyre með COWI, Basalt arkitektum, Mannviti, Dagný Land-Design og Speirs+Major.

Ramboll A/S með Dissing+Weitling arkitektum

Ney & Partners í samstarfi við Alternance architecture, Resource, H+N+S Landscapsarchitecten, Teikn og Magic Monkey

Á næstunni munu þeir sem valdir voru til þátttöku í samkeppninni fá senda keppnislýsingu þegar lögbundinn frestur er runninn út og í kjölfarið verður gerður bindandi samningur við þá um þátttöku í samkeppninni, sem búist er við að verði lokið um miðjan maí sem áður segir.

Í auglýstri tillögu að deiliskipulagi er gert ráð fyrir um 270 metra langri brú yfir voginn frá Kársnesi, nánar tiltekið frá norðurenda Bakkabrautar að flugbrautarenda Reykjavíkurflugvallar.

Markmið tillögunar er að bæta samgöngutengingar milli Reykjavíkur og Kópavogs og styðja við vistvæna samgöngukosti. Brúin verður fyrir umferð gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur. Tillagan gerir einnig ráð fyrir landfyllingu undir brúarendum beggja megin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert