Erlendur skutlari grunaður um fíkniefnaakstur

Nokkrir voru teknir í umferðinni undir áhrifum fíkniefna eða áfengis …
Nokkrir voru teknir í umferðinni undir áhrifum fíkniefna eða áfengis í nótt. mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði bifreið í Hafnarfirði kl. rúmlega tvö í nótt, en henni ók erlendur ferðamaður, sem grunaður er um akstur undir áhrifum fíkniefna. Maðurinn var á bílaleigubíl og sagði farþegi sem var í bifreiðinni að hann hefði „fundið hann á síðu skutlara og væri að nota skutlþjónustu hans“, samkvæmt því sem lögreglan segir í samantekt sinni um helstu verkefni gærkvöldsins og næturinnar.

Líkamsárás og húsbrot

Á öðrum tímanum í nótt var karlmaður handtekinn í miðborg Reykjavíkur, grunaður um líkamsárás, brot á lögreglusamþykkt, áfengislögum og ofbeldi gegn lögreglu. Maðurinn var í annarlegu ástandi við handtöku og gisti fangaklefa í nótt.

Það gerðu fleiri. Um kl. hálffimm í nótt var karlmaður sem var að sparka upp hurð á húsi í Hafnarfirði handtekinn, grunaður um húsbrot og eignaspjöll. Honum var sömuleiðis skellt í steininn.

Brotist var inn á bensínstöð í Vesturbæ Reykjavíkur í nótt, en tilkynning um innbrotið barst lögreglu á fimmta tímanum. Ekki er vitað hverju var stolið.

Ökumenn með vín í æðum

Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu í nótt, grunaðir um að aka undir áhrifum eiturlyfja eða áfengis. Einn var stöðvaður í Laugardal eða Vogahverfi, grunaður um fíkniefnaakstur, vörslu fíkniefna og einnig brot á vopnalögum.

Annar var stöðvaður í Grafarvogi fyrir svipaðar sakir, en sá reyndist reyndar bæði undir áhrifum áfengis og fíkniefna, auk þess sem hann var sviptur ökuréttindum. Hann er einnig grunaður um brot á vopnalögum.

Fleiri ölvaðir ökumenn voru teknir ölvaðir við stýrið, einn í Hlíðahverfi í Reykjavík, tveir í Breiðholti og annar í Hafnarfirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert