Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, er komin til Strassborgar þar sem hún ætlar að vera viðstödd málflutning Landsréttarmálsins fyrir yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í fyrramálið. Frá þessu greinir hún á vefsíðu sinni í dag.
Undirréttur MDE komst að þeirri niðurstöðu í mars á síðasta ári að skipun tiltekins dómara við Landsrétt hefði falið í sér brot gegn grein mannréttindasáttmála Evrópu og var ríkið dæmt til að greiða 15 þúsund evrur í málskostnað.
Stjórnvöld óskuðu eftir því að yfirdeild MDE tæki málið fyrir og á það var fallist í september. Á morgun fer málflutningurinn fram, en fram hefur komið að það gæti tekið 1-2 ár að fá endanlega niðurstöðu í málið.
Sautján dómarar dæma í málinu í yfirdeildinni, þeirra á meðal Róbert Spanó, sem einnig tók málið fyrir í undirréttinum ytra.
Málið sem um ræðir snýst um umferðarlagabrot sem karlmaður á fertugsaldri var sakfelldur fyrir hér á landi, hann hélt því fram að hann hefði ekki notið mannréttinda hérlendis sökum þess að dómari við Landsrétt sem dæmdi í máli hans hefði verið ólöglega skipaður og hann ekki notið réttlátrar málsmeðferðar af þeim sökum. Því ætti að ómerkja dóm Landsréttar í málinu.
Á það féllst Hæstiréttur Íslands ekki, þrátt fyrir að segja að „annmarkar“ hefðu verið á stjórnsýslulegri meðferð við skipan dómara, en undirréttur MDE komst að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn mannréttindum mannsins, sem áður segir.
Sigríður fjallar um málið í bloggfærslu sinni í dag og segir að enginn vafi sé á því í hennar huga að maðurinn hafi notið réttlátrar málsmeðferðar af hálfu allra dómaranna sem sakfelldu hann.
„Sú málsmeðferð er í samræmi við stjórnarskrá Íslands, almennar íslenskar réttarfarsreglur og einnig mannréttindasáttmála Evrópu,“ skrifar Sigríður, sem sendi sjálf inn greinargerð til yfirdeildarinnar nýlega þar sem hún andmælti forsendum í niðurstöðu undirréttarins.