Fagnar því að sjá upprisu láglaunastéttarinnar

Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Pírata.
Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Pírata. mbl.is/Hari

„Það er algjörlega ljóst að við viljum hækka lægstu laun og stytta vinnuvikuna. Því hefur verið rækilega komið til skila til samninganefndarinnar sem situr í okkar umboði. Við teljum óboðlegt að fólk í fullri vinnu geti ekki lifað af laununum sínum,“ sagði Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Hún var gestur umræðuþáttarins ásamt Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, borgarfulltrúa Sósí­al­ista­flokks Íslands, Þórunni Sveinbjarnardóttur, formanni BHM, og Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumanni hjá Samtökum atvinnulífsins. Umræðuefnið var kjarabarátta verkalýðsfélaga og þá með áherslu á baráttu stéttarfélagsins Eflingar gegn Reykjavíkurborg.

Klókt hjá Eflingu að einblína á Reykjavíkurborg

Dóra bætti því við að borgaryfirvöld hefðu verið að vinna út frá inntaki lífskjarasamningsins og það væri fullur samningsvilji hjá Reykjavíkurborg enda væri verið að gera allt til að auðvelda ferlið og flýta því. Hún sagði að störf þyrftu að vera metin að verðleikum og Íslendingar þyrftu að breyta verðmætamati sínu.

Hún sagðist standa með láglaunafólki og fagnaði því að fá að verða vitni að upprisu láglaunastéttarinnar á Íslandi. Hún nefndi það þó að henni fyndist að Efling væri að gera Reykjavíkurborg að burðarlið í sinni kjarabaráttu með öllum þeim hita og þunga sem því fylgir. Spurð hvort henni fyndist það ósanngjarnt neitaði hún því og sagði það klókt því borgin væri líklegasti aðilinn til að hlusta á kröfur Eflingar.

Meirihlutinn femínískur í orði en ekki borði

Sunna Magdalena sagði stöðuna grafalvarlega fyrst starfsfólk borgarinnar væri tilbúið að leggja niður störf og væri komið í baráttuham. Það væru skýr skilaboð að láglaunastefna borgarinnar gengi ekki upp lengur. Hún gagnrýndi meirihluta borgarstjórnar fyrir að hampa sér fyrir að vera femínískur og jafnréttissinnaður.

„Einstaklingar eru að segja hingað og ekki lengra – þegar einstaklingar eru á sultarlaunum þá þurfum við að byrja á að leiðrétta það. Flokkar í meirihluta borgarstjórnar sem gefa sig út fyrir að vera femínískir flokkar og berjast fyrir jafnrétti en ná ekki að setja upp stéttargleraugun og átta sig á því að Reykjavíkurborg er vinnuveitandi stórs hóps sem nær ekki að láta launin sín duga og það eru konur,“ sagði Sanna.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarstjórnarfulltrúi Sósíalistaflokksins.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarstjórnarfulltrúi Sósíalistaflokksins. Ljósmynd/Aðsend

Íslendingar aftarlega á merinni

Þórunn sagði það vera augljóslega óboðlegt að fólk sem sé í fullri vinnu búi við fátækt og það væri í grunninn vandamál sem allir ættu að vera sammála um að laga. Hún tók undir með Sönnu og sagði umræðu um láglaunakjör Eflingar að stærstum hluta vera umræðu um stöðu kvenna enda séu flestar láglaunastéttir kvennastéttir. Hún sagði Íslendinga vera aftarlega á merinni þegar kæmi að því að bæta vinnulag á vinnumarkaði.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ásdís tók undir að það væri óboðlegt að fólk gæti ekki lifað af á launum sínum og sagði það meðal annars hafa verið markmið lífskjarasamninganna að hækka lægstu laun meira en önnur.

Hún tók hins vegar fram að efnahagshorfur hefðu breyst og það ansi hratt. Hagvöxtur hefði verið lítill sem enginn síðan í fyrra og Seðlabanki Íslands gerði ráð fyrir 0,8% hagvexti á þessu ári sem væri í raun neikvæður hagvöxtur á hvern mann. Í þeim samdrætti sem væri að eiga sér stað væru lífskjarasamningarnir ákveðið skjól fyrir launþega.

Hún útilokaði þó ekki að hægt væri að gera meira núna fyrir launalægstu stéttirnar en sagði að það væru tvær hliðar á málinu. Við þyrftum að passa okkur á því að ganga ekki of langt því það gæti endað í óstöðugleika, verðbólgu og hugsanlega gengisfalli. Hún sagði kaupmátt lægstu launa hafa aukist meira en kaupmátt meðallauna.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs hjá Samtökum atvinnulífsins.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs hjá Samtökum atvinnulífsins. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert